149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[20:34]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Það kemur mér í rauninni ekki á óvart þó að hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir átti sig ekki alveg á því hvað á sér stað hérna, af hverju við viljum ekki bara að fá að ræða málið í þingsal. Þetta mál er ekki tækt til umræðu í þingsal af því að það eru ekki öll gögn, sem liggja á bak við fullyrðingar um eitt og annað, tilbúin. Málið er ekki tilbúið. Við erum ekki komin með töflu í hendur sem sýnir hvaða framkvæmdir á að fara í og hvaða framkvæmdir á ekki að fara í og hvernig á að fjármagna þær. Við erum enn þá að bíða eftir nýjustu útgáfu af þeirri töflu. Þegar var verið að fara yfir nefndarálitið í morgun þá var það enn þá ekki alveg tilbúið heldur og ýmislegt þar inni sem ekki á að vera þar, samkvæmt (Forseti hringir.) fyrirskipun frá ráðuneytinu. Þannig að þetta er staðan og þegar staðan er sú að ekki er búið að klára málið í nefndinni, þá er það nú varla tækt til umræðu í þingsal.