149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[20:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er með þrjá og hálfan punkt. Ég tala ekki fyrir kjósendur en ég tala við mikið af fólki. Eins og hún birtist mér er umræðan skammt á veg komin í samfélaginu og hv. þm. Jón Gunnarsson ákveður ekkert hversu miklar rökræður fólk þarf, það er bara ekki eitthvað sem hann ákveður.

Um ummæli hv. þm. Birgis Ármannssonar vil ég segja að málþófsvopnið er einkenni valdaleysis minni hlutans. Við ræddum þetta mjög mikið, eða ég alla vega, á þarsíðasta kjörtímabili og ég er hvenær sem er til í meira af því samtali, enda mikilvægt.

Og við hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur vil ég segja að ég treysti þeim hv. þingmanni alveg til að taka heiðarlega umræðu og skipta um skoðun ef einhver ný gögn koma inn. Það er hins vegar dæmigert þetta trukk hérna sem við erum að kvarta yfir sem stendur í vegi fyrir trúverðugleika gagnvart því heila ferli. Það hefði ekki kostað hv. þm. Jón Gunnarsson neitt að taka tillit til annarra, það hefði ekki kostað neinn neitt. En hann kaus að gera það ekki. Hann kýs almennt að gera það ekki og það vekur fólki ótta og vantrú á því að hið þinglega ferli, þar sem við rökræðum okkur niður á einhverja lausn, virki sem skyldi. Slík hegðun dregur úr trúverðugleika gagnvart því og þaðan kemur óttinn.

En að lokum segi ég bara að mér finnst mjög gott og mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra hafi komið hingað og útskýrt að (Forseti hringir.) þetta sé áfram til umræðu í kvöld. Það átti samt að vera óþarfi.