149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[20:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég verð að byrja á því að þakka forseta fyrir að stýra afar vel umræðu um þungunarrof sem hefur átt sér stað hér í dag og þakka þingheimi líka fyrir að taka þátt í þeirri mikilvægu umræðu. Við erum í miðjum klíðum í þeirri umræðu hér.

En ég vil líka árétta það að þegar hæstv. forsætisráðherra kemur hér inn og tekur til máls um fundarstjórn forseta þá er það ekki að ástæðulausu. Það er til þess að tryggja að það sé sameiginlegur skilningur í þinginu á því hver séu næstu skref í málinu. Það eru hennar orð og þau eru algjörlega skýr að það verður ekki aðhafst frekar í þessu máli fyrr en að afloknum fundi með formönnum. Það að fundur sé boðaður með formönnum hér í þinghúsinu klukkan níu, sem er tíminn samkvæmt mínum upplýsingum, segir okkur að þingið getur andað rólega fram yfir þann fund, þ.e. að forsætisráðherra hefur tekið ákvörðun um að málið sé statt þar að það verðskuldi fund (Forseti hringir.) með formönnum allra flokka.

Ég fagna því og ég held að það sé afar mikilvægt að við getum haldið áfram að ræða þau mál sem hér eru á dagskrá.