149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[20:44]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Svona rétt til að halda því til haga af því að maður er ásakaður um vandlæti og yfirgang þá var áhugavert að hlusta á hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur sem sagði við hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur áðan að hún áttaði sig ekki á því hvað væri til umræðu. Það er ágætt að þingheimur viti hver getur dæmt um það í þingsal hvenær fólk áttar sig á því hvað er til umræðu og hvað ekki.

Ég vil ítreka það sem kom fram áðan, sem er mjög mikilvægt í þessu máli, að öllum þingmönnum umhverfis- og samgöngunefndar hefur verið boðið að taka þátt í þeirri vinnu með sérfræðingum sem hefur átt sér stað undanfarna daga. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson hefur til að mynda unnið mikið með Vilhjálmi Árnasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, í þessu nefndaráliti, bara svo að því sé haldið til haga. Við höfum ítrekað boðið það að við séum tilbúin að koma og kynna málið á þingflokksfundum hjá öllum flokkum. Það hefur aldrei verið þegið. (Forseti hringir.) Fólk hefur ekki séð ástæðu til að setja sig betur inn í málin en telur sig þess umkomið hér að ræða um þetta (Forseti hringir.) af mikilli yfirvegun og þekkingu án þess að hafa óskað eftir því eða (Forseti hringir.) tekið þátt í því að móta þá stefnu. Það hefur allt staðið til boða.

Já, það eru dagar eftir af þessu þingi (Forseti hringir.) og það verður víst nægur tími núna fram að jólum sem við höfum (Forseti hringir.) ef einhverjir kjósa að vera með málþóf út af málinu. Það yrði ekki í fyrsta skipti sem slíkt á sér stað í þinginu