149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[20:46]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það kann að vera svolítið erfitt að setja sig í stellingar til að ræða hér um mikilvægt mál. Það er greinilega ekki gott að lenda í matarhléi og svo tvöföldum skammti af fundarstjórnarumræðu.

Ég er hér til að ræða stjórnarfrumvarp til laga um þungunarrof frá hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég ætla að byrja á því að fá að segja: Loksins, loksins! Þetta frumvarp er svo löngu, löngu tímabært. Í dag búum við nefnilega við lög í þessum efnum sem eru eldri en sú sem hér stendur og taka hreinlega ekki mið af því samfélagi sem við búum í í dag. Því held ég að það sé mjög mikilvægt að þetta frumvarp sé fram komið. Ég sé það vel á greinargerðinni og þegar maður kynnir sér þetta mál að það hefur svo sem staðið til lengi. Það var ekki fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra heldur fyrrverandi fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, ekki satt, sem skipaði nefnd á sínum tíma til að yfirfara lögin. Ég veit að læknar sjálfir skrifuðu grein fyrir einhverjum árum síðan og vöktu okkur til umhugsunar um að það væri orðið algjörlega nauðsynlegt að gera breytingar á þessum lögum. Og þegar við í þessum sal heyrum í þokkabót að í rauninni er ekki verið að vinna eftir lögunum heldur er útfærslan orðin einhver önnur, hlýtur það að segja okkur að það sé algjörlega tímabært að ráðast í þessa breytingu.

Það eru ekki svo margar greinar í þessu ágæta frumvarpi og mér finnst það nokkuð skýrt. Ég ætla aðeins að fá að tæpa hérna á nokkrum atriðum. 1. gr. er um markmið og gildissvið. Markmiðið er að tryggja sjálfsforræði kvenna sem óska eftir þungunarrofi, að það sé virkt með því að veita þeim öruggan aðgang að heilbrigðisþjónustu í samræmi við ákvæði laganna.

Ég vona að við séum öll sammála um mikilvægi þess að tryggja sjálfsforræði kvenna þegar kemur að þessum þætti. Í dag er það þannig í lögunum að það þurfa annars vegar að vera tilgreindar ástæður, sem eru þá annaðhvort félagslegar ástæður eða læknisfræðilegar ástæður, og það sé annarra þá að leggja einhvers konar mat á það hvort það sé raunverulegt. Einhver notaði þau orð hér áðan að það væri „opinbert óþungað vottorðavald“ sem tæki ákvörðun um slíkt. Það getur illa samræmst þeim sjónarmiðum sem ég hef alla vega og ég held reyndar að við flest höfum í þessum sal þegar kemur að þessum lið. Ég tala nú ekki um þegar talið er upp í lögunum hvað geti fallið undir skilyrði um félagslegar aðstæður. Þær skilgreiningar voru á árinu 1975 allt aðrar en þær eru hjá okkur í dag.

Þá veltir maður því fyrir sér hvers konar aðstæður kunni að vera uppi til að kona óski þess að fara í þungunarrof. Mér getur að sjálfsögðu dottið í hug nokkrar ástæður. En ef við ætlum að reyna að skrifa það inn í lögin held ég að það sé algerlega vonlaust fyrir okkur hér, löggjafann, að gera okkur í hugarlund allar þær aðstæður sem mögulega kynnu að koma upp sem ættu að veita sjálfsagðan rétt til þungunarrofs. Þess vegna held ég að það verði að vera þannig að við treystum alltaf konunni fyrir því að taka þessa ákvörðun.

Hér áðan varð einhver umræða um þungbæra ákvörðun. Hvaða orð sem við notum um það þá er ég handviss um að það er aldrei léttvæg ákvörðun að rjúfa þungun. Og ég get ekki ímyndað mér að það sé nokkur annar betur til þess fallinn að leggja mat á aðstæður sem uppi kunna að vera en konan sjálf. Þess vegna er ég fylgjandi því sem hér kemur fram í þessu frumvarpi um sjálfsákvörðunarrétt konunnar.

Þá eru það kannski tvær aðrar greinar sem vekja ákveðna umhugsun, eðlilega. Það er annars vegar 4. gr. sem fjallar um tímalengdina. Í þessu frumvarpi er talað um að heimilt sé að rjúfa þungun konu, að hennar beiðni, til loka 22. viku. Það er jafnframt lögð áhersla á það að þungunarrof skuli ætíð framkvæmt eins fljótt og auðið er og helst fyrir lok 12. viku þungunar.

Ég get alveg haft skilning á því að fólk hafi mismunandi sýn og skoðanir á því hvað sé réttur vikufjöldi þegar kemur að þessum málum. En mér þykja þó þau svör sem bárust frá hæstv. heilbrigðisráðherra og skilgreiningarnar sem fjallað er um í greinargerðinni nokkuð góð. Það að 22 vikna fóstur er ekki lífvænlegt fóstur eru rök í málinu. En ég velti fyrir mér því að segja 18, 20 eða 22 vikur eða fara jafnvel enn þá lengra, hvar sé endilega eðlilegt að draga mörkin. Mér þykir því þessi tillaga, kannski sérstaklega þegar maður áttar sig á því hvernig hún kom til en hún kom í raun til eftir athugasemdir inni á samráðsgáttinni frá sérfræðingum í þessum málaflokki sem lögðu til nákvæmlega þetta, ef ég skil málið rétt, þannig að það gefur mér einhverja sálarró um að þarna kunnum við að hafa sett niður réttan, ef hægt er að orða það með þeim hætti, tíma hvað það varðar. Ég hvet bara hv. velferðarnefnd til að fara mjög vel yfir þetta mál og ég geri ráð fyrir því að þessi grein verði töluvert til umræðu. Það er full ástæða til að hlusta á þau sjónarmið sem kunna að vera uppi hvað það varðar.

Þá staldraði ég líka við 5. gr. frumvarpsins, um heimild til þungunarrofs hjá stúlku sem er ólögráða fyrir æsku sakir. Þar segir:

„Heimilt er að rjúfa þungun samkvæmt ákvæðum laga þessara hjá stúlku sem er ólögráða fyrir æsku sakir, að hennar beiðni, án samþykkis foreldra eða forráðamanna. Í tengslum við þungunarrof skal henni boðin fræðsla og ráðgjöf um getnaðarvarnir.“

Ég held að það sé eðlilegt, og það kom fram í einhverri ræðu fyrr í kvöld, að velta fyrir sér hlutverki foreldra eða ekki bara hlutverki heldur skyldum foreldra í þessum efnum. En þá fannst mér líka ágætt að lesa í greinargerðinni umræðuna sem hafði átt sér stað um það, annars vegar þau sjónarmið sem dómsmálaráðuneytið hafði haldið á lofti og hins vegar sjónarmið sem höfðu komið frá umboðsmanni barna. Mér fannst það býsna góð rök og aftur hvet ég hv. velferðarnefnd til að fara yfir þetta. Ég geri ráð fyrir því að það kunni líka að vera einhver sjónarmið hvað þessa grein varðar en finnst þetta vera mjög málefnaleg og góð nálgun á málið.

Það eru kannski fyrst og fremst þessi atriði í 4. gr. og 5. gr. sem fá mann til að hugsa sérstaklega: Er þetta nákvæmlega rétta leiðin til að nálgast þetta viðkvæma viðfangsefni? En ég er alla vega ekki í neinum vafa um að markmið laganna um að tryggja sjálfsforræði kvenna sé mikilvægt og mér hefur heyrst að flestir sem hafa tekið til máls í þessu máli séu sammála um mikilvægi þess.

Þá langar mig að hvetja nefndina til að skoða sérstaklega hvað verður um þann lagabálk sem í dag heldur utan um það sem í lögum kallast fóstureyðing, þ.e. lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Hér erum við að ræða nýjan lagabálk sem mun taka á þungunarrofi, eins og það mun heita núna, og ég vil ítreka það að ég er mjög hlynnt því nafni og held að það sé mjög mun meira lýsandi yfir það sem hér um ræðir. En nú á eftir ræðum við svo frumvarp til laga um ófrjósemisaðgerðir. Þá stendur eftir sá hluti laganna sem er um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir. Af því að ég hef ekki haft tíma undir þessum umræðum að lesa mig sérstaklega í gegnum það þá held ég að það sé mjög mikilvægt að fara vel yfir hvað stendur þá eftir í þeim lögum og hvort það þurfi frekari breytinga við en gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi þar sem verið er að fella ákveðnar greinar burt er lúta að þungunarrofi og ófrjósemisaðgerðum.

Ég held að ég hafi klárað nokkurn veginn allt það sem ég vildi koma á framfæri en segi aftur að það tekur mann aðeins aðra leið þegar búið er að gera svona langt hlé á umræðunni og ræða um eitthvað allt annað eins og samgönguáætlun.

Mér finnst þetta svo löngu tímabært frumvarp og ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja það fram loksins núna og ég vil líka þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna áðan, sérstaklega þegar hún hvatti okkur í því hvernig við nálgumst þessa umræðu og mér finnst það afskaplega mikilvægt. Þetta er viðkvæmt mál og ég hef fullan skilning á því að það kunni að vera mismunandi sjónarmið uppi, en það eru líka rosalega mikið af tilfinningum. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að við förum yfirveguð inn í þessa umræðu og nálgumst hana út frá þeim staðreyndum og gögnum sem liggja fyrir. Nú ætla ég samt ekki að tala fyrir því að fólk megi ekki hafa tilfinningar. Það er auðvitað bara í mannlegu eðli að hafa það. En ég vil ítreka það sem ég sagði áðan í andsvari við hv. þm. Ingu Sæland að mér finnst gríðarlega mikilvægt hvernig við nálgumst umræðuna. Ég held að þeir sem leggist yfir þetta frumvarp hljóti að átta sig á mikilvægi þess, enda höfum við nefndir og fagaðila, við höfum ábendingar frá fagaðilum og fleirum, um mikilvægi þess að ráðast í þessa lagabreytingu. Þess vegna er mikilvægt að þetta frumvarp fái framgang og að það verði að lögum og að við nálgumst þau atriði í lögunum sem fólk kann að hafa mismunandi skoðanir á og mismunandi sjónarmið á málefnalegan hátt og að umræðan sé yfirveguð.