149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[20:59]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem stendur upp úr í þeim efnum er að mínu mati 9. gr. Þar er talað um að ákveðnar ástæður, annaðhvort félagslegar eða læknisfræðilegar þurfi að vera fyrir fóstureyðingu og hvernig eigi að meta slíkt.

„Við mat á félagslegum ástæðum skal tekið mið af því hvort konan hafi alið mörg börn með stuttu millibili og skammt sé frá síðasta barnsburði, hvort konan eigi við að búa bágar heimilisaðstæður vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysis annarra á heimilinu, konan geti ekki vegna æsku eða þroskaleysis annast barn á fullnægjandi hátt eða um sé að ræða ástæður sem eru fyllilega sambærilegar framangreindum ástæðum.“

Í greinargerðinni segir:

„Þessi upptalning endurspeglar ekki þær aðstæður sem flestar konur sem óska eftir þungunarrofi standa frammi fyrir í dag.“

Ég held að það sé einna helst þessi þáttur, að það sé á færi tveggja aðila, læknis og félagsfræðings, ef ég skil það rétt, að meta hvort kona uppfylli þau skilyrði sem löggjafanum datt í hug að setja inn árið 1975, skilyrði sem gætu verið möguleg ástæða þess að kona vildi fara í fóstureyðingu.

Ég er ekki búin að lúslesa öll lögin og þess vegna hvet ég nefndina sérstaklega til að fara yfir það sem eftir mun standa af lagabálknum. En þessir þættir stinga mig verulega.

Fagaðilar hafa einnig bent á, fæðingarlæknar og ljósmæður, að nauðsynlegt sé að gera breytingar á þessum lögum einmitt vegna þess að þau séu orðin úrelt miðað við þær aðstæður sem uppi eru í dag.