149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[21:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta er eitthvað á milli þess að bera af sér sakir og ræða um fundarstjórn. En hv. þm. Jón Gunnarsson ásakaði mig um „mikið samráð“ við hv. þm. Vilhjálm Árnason. Nú er það svo að samráð í þessu máli, um samgönguáætlun, hefur verið dálítið einhliða. Okkur var kynnt það á þriðjudaginn í síðustu viku að í boði væri einhvers konar undirnefnd í umhverfis- og samgöngunefnd sem myndi vinna náið með samgönguráðuneytinu eftir einhvers konar vilyrðum sem enginn kannaðist við. Þetta var mjög undarlegt. En alla vega var boðað til undirnefndarfundar eða eitthvað svoleiðis sem ég mætti á, sem var hér í færeyska herberginu og stóð í svo sem hálftíma. Ég og hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson vorum þar ásamt hv. þingmönnum Líneik Önnu Sævarsdóttur og Vilhjálmi Árnasyni. Þetta var nú öll „mikla samvinnan“ með hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni sem hv. þm. Jón Gunnarsson virðist hafa (Forseti hringir.) verið að vísa í. Ég get ómögulega túlkað það sem svo að ég hafi verið að vinna mikið með hv. þingmanni í þessu máli.