149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[21:06]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Við erum að ræða mikið mál og það verðskuldar vandaða umfjöllun. Það verðskuldar líka hófstillta orðræðu vegna þess að við erum að tala um stórar ákvarðanir og við erum að tala um ákvarðanir sem varða rof á þungun og það er efni sem ekki á að fara mjög stórum orðum um eða nota orðalag sem er til þess fallið að valda sárindum, sorg eða raunum þeirra sem í gegnum slíkt hafa farið.

Ég vil þess vegna byrja á að þakka hæstv. ráðherra Svandísi Svavarsdóttur fyrir frumvarpið. Mér sýnist að það sé vel undirbúið og vel ígrundað, samráð alls konar aðila um efni málsins hafi farið fram og það er gríðarlega mikilvægt. Að mínu mati snýst þetta fyrst og fremst um sjálfsákvörðunarrétt kvenna og að konan hafi yfirráð yfir líkama sínum og hún taki ákvarðanir um hvort rjúfa skuli þungun eða ekki. Þetta er því kvenfrelsismál. Þetta er líka mál sem snýst um að ráða sínu eigin lífi. Þetta er löngu tímabært mál, þ.e. að færa löggjöf til nútímahorfs sem er mjög mikilvægt.

Ég held líka að þetta sé mál — af því að okkur hefur dvalist hér nokkuð í fundarstjórn og við höfum verið að tala um alls konar mál sem uppi hafa verið miklar deilur og ágreiningur um — sem við eigum að vanda okkur með, flýta okkur hæfilega og reyna að tala okkur sem mest niður á góða niðurstöðu.

Ég tel, eins og ég hef minnst áður á, að þetta snúist fyrst og fremst um ákvörðunarrétt konunnar sjálfrar. Það getur ekki verið að kona eigi það undir öðrum hvort hún kýs að rjúfa þungun eða ekki. Og það er alveg sama hversu vel sú nefnd er skipuð, það er alveg sama hversu vel sú nefnd er meinandi og vill bera hag konunnar og líf hennar fyrir brjósti. Slík nefnd getur aldrei ákveðið fyrir konuna hvað hún vill og hvað er henni fyrir bestu. Konan hlýtur að vera besti dómarinn um það hvað henni er fyrir bestu og hvað hún vill með sitt líf.

Við erum með ákvæði í gömlu lögunum sem var gert að umtalsefni í andsvörum þegar hv. þm. Birgir Þórarinsson átti orðastað við hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur um að það þyrftu að vera einhverjar tilteknar ástæður sem heimiluðu að hægt væri að fara í fóstureyðingu, eins og það hét þá, og að meta þyrfti félagslegar ástæður, fjölda barneigna o.s.frv. Þetta er náttúrlega ekki það sem samræmist nútímanum og þess vegna löngu tímabært að breyta því.

Mig langar til að vitna aðeins í greinargerðina þegar var talað um tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar af því að mér finnst það býsna mikilvægt. Hefst nú tilvitnun, með leyfi forseta:

„Mikilvægt væri að Ísland sýndi umheiminum að konur hér á landi nytu virðingar, ákvörðun þeirra um þungunarrof væri virt sem og sjálfsforræði þeirra og þær studdar með faglegri fræðslu og ráðgjöf sem byggist á gagnreyndri þekkingu. Er þetta í takt við þróun á sviði mannréttinda sem hefur verið í þá átt að auka sjálfsforræði einstaklingsins. Má í því samhengi nefna fjölmarga alþjóðlega samninga og þróun í dómaframkvæmd á sviði þeirra, svo sem mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, mannréttindasáttmála Evrópu, samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn konum, samning Evrópuráðsins um vernd mannréttinda og mannlegrar reisnar með hliðsjón af starfsemi á sviði líffræði og læknisfræði: samningur um mannréttindi og líflæknisfræði. Þá er í 3. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna kveðið á um að allir eigi rétt til lífs, frelsis og mannhelgi. Takmarkanir á rétti kvenna til aðgangs að þungunarrofi hafa verið dæmdar brjóta gegn sambærilegu ákvæði í kanadísku stjórnarskránni af Hæstarétti þar í landi …“

Þetta er úr skýrslu nefndarinnar sem vann m.a. að því að undirbyggja þetta frumvarp. Mér finnst sérlega athyglisvert að horfa til þess sem nefnt er þarna, sem er dómur hæstaréttar Kanada þar sem raunverulega er dæmt að það fari gegn mannréttindum að takmarka rétt konunnar til þungunarrofs.

Ég held því að þetta sé gott mál, nauðsynlegt mál. Ég ætla að grípa niður í fleiri atriði. Það koma náttúrlega upp spurningar eins og í hæstaréttardómnum í Kanada: Er það konan ein sem á að ráða þessu? Í greinargerðinni, þar sem fjallað er um samræmið við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar, er vitnað í nokkra dóma og þar er t.d. vitnað í mál fyrir Mannréttindadómstólnum, og hér segir, með leyfi forseta:

„Í máli Bosso gegn Ítalíu […] tók dómstóllinn ákvörðun um frávísun kvörtunar um brot gegn 8. gr. sáttmálans með þeim rökstuðningi að réttindi mögulegs verðandi föður í tengslum við þungunarrof konu skuli fyrst og fremst taka mið af réttindum konunnar þar sem hún sé sá aðili sem þungunin hefur megináhrif á sem og framhald þungunarinnar eða rof hennar.“ — Það er gríðarlega merkilegt að lesa þetta. Og áfram. — „Þannig tók dómstóllinn ekki til greina afstöðu karlsins um aðkomu hans að ákvarðanatökunni.“

Þarna eru tekin af öll tvímæli um að það er konan sjálf sem ræður líkama sínum.

Það er líka rétt að hnykkja á því sem segir í greinargerðinni á blaðsíðu 13, með leyfi forseta:

„Við gerð frumvarpsins var lögð áhersla á að ákvæði þess yrðu ekki til þess fallin að ganga á ofanrituð réttindi“ — verið er að tala um réttindi fatlaðra — „og markmið samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá var áhersla lögð á að tryggja að frumvarpið samræmdist ákvæði 8. gr. samningsins um vitundarvakningu. Greinin skuldbindur ríki til þess að samþykkja tafarlausar, árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess meðal annars að vinna á móti staðalímyndum, fordómum og skaðlegum venjum sem tengjast fötluðu fólki, einnig þeim sem heimfæra má til kyns og aldurs, á öllum sviðum mannlífs.“

Þetta færir mann aðeins að öðru sem tengist vissulega efni frumvarpsins sem komið var hér að í upphafi umræðunnar og það er skimun og notkun skimunar til að greina, hvað eigum við að segja, heilbrigði eða ástand fósturs eða líkur á að fóstrið sé ekki innan einhverra marka þess sem menn telja vera einhvers konar norm og afleiðingar þess. Ég get alveg sett spurningarmerki við það hversu langt hefur verið gengið í því að allar konur eða flestar konur, ég þori ekki að taka of stórt upp í mig, fari í alls konar skimanir.

Við erum sem betur fer flest ágæt til heilsunnar og meðganga gengur yfirleitt snurðulaust fyrir sig. Það er meginreglan. Maður getur spurt sig hversu langt á að ganga nema það séu einhverjar skýrar ástæður til þess að beita skimun. Auðvitað er það þannig að í skimuninni getur ýmislegt komið fram sem hugsanlega gæti haft áhrif á líðan konunnar og viðhorf til þungunarinnar. Mér finnst alveg allt í lagi að ræða þetta í samhengi, en ég fagna því sem fram kom í máli hæstv. ráðherra að verið væri að skoða þessi mál á viðeigandi vettvangi.

Mig langar líka, af því að mikilvægt er að gott samráð sé um alla þessa hluti, rétt að minnast á í greinargerðinni þar sem fjallað er einmitt um samráð og vitna í hana, með leyfi forseta:

„Í umsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga var mikilvægi fyrsta kafla laganna um ráðgjöf og fræðslu undirstrikað.“

Ég held einmitt að þetta sé mjög mikilvægur þáttur, að ráðgjöf og fræðsla standi konum til boða þegar og ef þær velta fyrir sér þungunarrofi. Þetta er erfið ákvörðun. Ég veit að konur taka ekki svona ákvörðun og vilja ekki taka svona ákvörðun nema að yfirveguðu máli og mjög mikilvægt er að hjálpa þeim og styðja til þess.

Held ég áfram tilvitnuninni þar sem frá var horfið, með leyfi forseta:

„Taldi félagið að mikilvægt væri að breyta ákvæðum laganna um þungunarrof í grundvallaratriðum. Félagið lagði áherslu á að sjálfsákvörðunarréttur konu yfir eigin líkama yrði virtur enda endurspeglaði það viðhorf og kröfur nútímans. Kom fram að konur ættu ekki að þurfa að afsala þeim rétti til óskyldra aðila, lækna eða félagsráðgjafa, […] og taldi félagið slíka forræðishyggju ekki ásættanlega.“

Einnig kemur fram í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Í umsögn Kvenréttindafélags Íslands kemur fram að á Íslandi ríki víðtæk samfélagssátt um nauðsyn þess að tryggja að konur geti rofið þungun að eigin ósk og því sé löngu tímabært að farið sé í endurskoðun á löggjöfinni til að færa hana til nútímans og viðurkenna kynfrelsi kvenna og yfirráð kvenna yfir eigin líkama.“

Ég ætla ekki að fara í sjálfu sér ofan í einstök ákvæði frumvarpsins. Mér finnst það ágætt. Það er skýrt, það er stutt, það er í sjálfu sér einfalt. En það er mjög mikilvægt. Ég vil þó kannski rétt að lokum, ég kemst eiginlega ekki hjá því að minnast á 5. gr., þ.e. heimild til þungunarrofs hjá stúlku sem er ólögráða fyrir æsku sakir.

Ég held að þetta sé afar mikilvægt og eins það sem kemur fram hjá umboðsmanni barna, að það sé óvarlegt og ekki æskilegt að foreldrar geti með einhverjum hætti haft ákvörðunarrétt fyrir hönd dóttur væntanlega eða stúlkubarns eða ungri konu um svona mikilvæga ákvörðun. Það hljóti að vera barnsins sjálfs eða unglingsins að taka þá ákvörðun því að enn og aftur þarf að leggja þá áherslu á að það sé stutt vel við og fræðsla sé góð. Í þeim tilvikum er það kannski enn mikilvægara en ella að ákvarðanir séu teknar á eins upplýstum grunni og nokkur einasti kostur er.