149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[21:33]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég skil það svo sem vel að hún hafi kannski ekki þær tölur á reiðum höndum. En þetta er eitthvað, held ég, sem mikilvægt er að rætt verði innan nefndarinnar og hvort hugsanlega sé hægt að fá einhverjar upplýsingar um það hversu margar konur hafa hætt við fóstureyðingu vegna þess að þær fóru í ráðgjöf og ráðgjöfin leiddi til þess að þær hættu við fóstureyðingu. Ég held að þær tölur hljóti að vera til og væri mjög æskilegt, að mínu mati, að þetta yrði rætt innan nefndarinnar.

Það má heldur ekki gleyma því að ráðgjafi, félagsráðgjafi í þessu tilfelli, veltir væntanlega fyrir sér þeim möguleikum sem eru í stöðunni þegar kona kemur í ráðgjöf og er að íhuga fóstureyðingu. Einn af þeim möguleikum er að ganga með barnið og gefa það síðan til ættleiðingar, þannig að það er mikilvægur kostur í erfiðri stöðu að mínu mati. Þess vegna held ég að afar mikilvægt sé að þessi ráðgjöf sé fyrir hendi og hún á að sjálfsögðu að vera endurgjaldslaus.

Ég hef svolitlar áhyggjur af því í frumvarpinu, að þetta verði ekki lengur krafa, og þá fari konur jafnvel á mis við mikilvæga ráðgjöf. Ég vil því hvetja nefndina til að skoða þennan þátt málsins.