149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[21:35]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Já, ég þakka hv. þingmanni og ég heyri hvað hann segir og hvaða áhyggjur hann hefur. Hann hefur svo sem viðrað þær í umræðunni fyrr. Ég er fullviss um að nefndin mun taka hina ýmsu anga þessa máls til góðrar umfjöllunar.

Mér þykir t.d. varðandi ráðgjöfina fróðlegt að velta öðrum anga upp og hann er sá: Eru til tölur um konur sem hafa farið í skimun, fengið þær upplýsingar að fóstrið er fatlað á einhvern hátt og fengið ráðgjöf um að best væri að framkvæma þungunarrof? Það er líka spurning sem væri áhugavert að fá svar við. Ráðgjöf getur svo sem leitt fólk í hinar ýmsu áttir og það er ekkert að því að fá ráðgjöf. Ég mun taka þátt í umræðu um það alla daga. En ég mun aldrei hvika frá því að það verður aldrei annað en ráðgjöf, því að að mínu viti liggur ákvörðunarrétturinn hjá konunni.