149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[21:40]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég fagna því að þetta mál sé komið fram og þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að vinna vel að því. Ég hef beðið þessa frumvarps með talsverðri eftirvæntingu eftir að skýrsla tíðrædds starfshóps kom út og langar til að byrja á því að fagna sérstaklega því sem hefur ekki fengið neitt sérstaklega mikla athygli. Þess vegna vil ég byrja á því að segja að verði þetta frumvarp að lögum er ekki lengur heimild í lögum, alla vega ekki skýrt orðuð, og ég vona að það verði ekki lengur í lögum, að lögráðamaður ólögráða konu geti ákveðið fyrir hennar hönd að hún hafi ekki vit á eigin líkama og að hún hafi ekki eigin sjálfsákvörðunarrétt hvað það varðar. Hann geti því sótt um að fara í þungunarrof fyrir hennar hönd.

Við höfum í raun og veru enn þá lagaheimild í núgildandi lögum fyrir því að lögráðamaður lögræðissviptrar konu geti neytt hana í þungunarrof. Mér hefur alltaf sviðið að það komi ekki fram í skýrslunni frá starfshópnum. Það var það eina sem mér fannst vanta í þá skýrslu, af því að hún er mjög yfirgripsmikil og góð og tekur öllum helstu álitaefnum og hópurinn kemur efninu virkilega vel frá sér. Þetta var eina sem mér fannst vanta, að það bara geti ekki gengið að hafa það þannig, enda hefur komið fram hjá sérstökum sendiherra Sameinuðu þjóðanna um bann við pyndingum og annarri vanvirðandi og ómannúðlegri meðferð eða refsingu, að það að neyða konur í fóstureyðingu eða ófrjósemisaðgerðir eða hvað sem það nú er, geti talist til pyndinga og ætti að teljast til pyndinga. Við erum sem sagt enn með pyndingarákvæði í lögunum okkar, enda eru þau frá 1975 þegar ekki var borin neitt sérstaklega mikil virðing fyrir sjálfsákvörðunarrétti kvenna. Og það leiðir mig að því sem átti að vera upphafspunktur ræðunnar minnar, og mér fannst mjög mikilvægt að þetta kæmi fram, að til stendur að breyta þessu. Það skiptir miklu máli vegna þess að það er mjög ljótt og andstætt öllum þeim mannréttindum sem við segjumst virða og mér þykir mjög vænt um, að þetta ákvæði sé enn þá í lögunum okkar í dag.

En hvað sjálfsákvörðunarrétt kvenna varðar gilda lögin frá árinu 1975, eftir því sem ég best veit. Samþykkt þeirra á sínum tíma var nokkuð umdeild. Þá stóð til að konur þyrftu ekki að færa sérstök rök fyrir því fram að 12. viku hvers vegna þær kysu að fara í þungunarrof. Þær gætu bara sóst eftir þeirri læknisaðstoð og fengið hana. En það þótti ekki í lagi á þeim tíma að konur hefðu þann sjálfsagða sjálfsákvörðunarrétt að ákveða sjálfar hvort þær byndu enda á þungun eða ekki. Þess vegna voru þessi skilyrði um sérfræðinganefnd sem tæki ákvörðun fyrir hönd konunnar sett inn, að þeirra leyfi þyrfti fyrir því að kona fengi að fara í þungunarrof. Ástæðurnar voru svo flokkaðar og tilgreindar. Konan þurfti að hafa félagslegar ástæður og svo læknisfræðilegar ástæður og það voru sér ferli fyrir málin. Það þurfti að vera einhver sérstök afsökun fyrir ákvörðuninni.

Mér finnst sú krafa mjög úreltur og gamaldags hugsunarháttur að það þurfi einhverja sérfræðinefnd til þess að ákveða það að konur þurfi að koma með einhverja afsökun fyrir því að þær kjósi að ganga ekki í gegnum níu mánaða ferli, jafnvel lengra, þar sem lífið umturnast hjá viðkomandi konu og svo þarf hún að vera með barnið næstu áratugina, ef ekki allt lífið. Ég fagna því að við séum að víkja af þeirri leið núna með þessu frumvarpi og að við séum að hætta að krefjast einhverrar réttlætingar og einhverra afsakana fyrir því að konur stjórni sínum eigin líkama og ráði hvernig farið er með hann. Það á ekki að vera þannig að við þurfum að koma með einhverjar afsakanir eða útskýringar á því hvernig við kjósum að ráðstafa lífi okkar og limum, eða svo skyldi maður halda.

Það leiðir mig að því sem ég hef heyrt, að örfáir hv. þingmenn hér virðast ekki alveg sannfærðir um ágæti þessa frumvarps. Þeir hafa áhyggjur af því að konur leiti sér ekki lengur ráðgjafar, verði skyldan til að fá ráðgjöf um getnaðarvarnir og barneignir og ég veit ekki hvað, afnumin úr lögum, verði fullorðnar konur ekki lengur neyddar til þess að hlusta á ráð sérfræðinga um hvernig þær eiga að haga sínu móðurlífi. Að þær megi þá bara hætta að leita sér ráðgjafar og það verði þar af leiðandi einhvers konar upplausn, einhvers konar minna siðferðisvit eftir í þeim konum sem munu neita að leita sér ráðgjafar vegna þess að löggjafinn skikkar þær ekki lengur til þess.

Ég verð að segja að mér finnst almennt ljótt að neyða fólk til að fá einhverja ráðgjöf og mér heldur niðurlægjandi og niðrandi gagnvart konum að skikka þær eins og staðan er núna í að fá ráðgjöf um getnaðarvarnir og annað. Það þurfa ekki allar konur ráðgjöf um það. Það er bara fáránlegt að leggja einhverjar skyldur á þær að þiggja það.

Svo hefur það valdið mér talsverðum áhyggjum að heyra hugmyndir um að konur þurfi að fá meiri stuðning og meiri ráðgjöf um ættleiðingar, um þann möguleika að gefa barn til ættleiðingar. Ég tengi það við nokkra hluti. Þessar hugleiðingar hafa komið frá hv. þingmönnum Miðflokksins sem standa að frumvarpi sem lagt hefur verið fram. Mér finnst svolítið erfitt að tala um það af því að mér finnst það svo ótrúlega fáránleg tillaga. En allt í lagi. Þeir leggja til að þunguðum konum verði sérstaklega greitt fyrir að ganga með börn og eiga þau og gefa þau til ættleiðingar, frekar en að fara í þungunarrof.

Þessi hugmynd er sett fram samhliða því að hv. þingmenn tala um að konur þurfi að fá ráðgjöf um allar þær leiðir sem standa til boða til að þær geti gengið með barn sem þær vilja ekki eiga, og gefa það til ættleiðingar. Á sama tíma er talað um hvað fólkið sem ekki getur eignast börn og fólki sem fæðast andvana börn, hljóti að líða illa yfir umræðunni um að núna eigi að rýmka rétt kvenna til þess að fara í þungunarrof. Ósvífnar þessar konur að vilja losa sig við fullkomlega lífvænleg börn úr þeirra legum, þegar hér er fólk sem vantar börn. Þetta er nákvæmlega það andrúmsloft og sú hugmyndafræði sem ég tel að hv. þingmenn Miðflokksins séu að færa til kvenna. Þær eru útungunarvélar og ef þær hafa lífvænlegt fóstur innra með sér skuli reyna eftir fremsta megni að fá þær til að ganga með það til þess að þeir geti fengið barn sem vantar það. Annað er bara sóun á góðu fóstri og góðri útungunarvél og möguleikum hennar að láta hana ekki ganga með fóstrið til enda fyrst búið er að koma því fyrir í vélinni.

Þetta eru þau hugrenningatengsl sem ég fæ í kringum þessa orðræðu. Mér finnst hún ljót. Mér finnst hún virkilega ljót, vegna þess að það er nóg gert af því að reyna að koma samviskubiti endalaust inn í heilann á konum vegna alls sem þær gera, og þá sérstaklega í sambandi við það sem tengist þeirra innsta kjarna, líkama þeirra. Mér finnst óþolandi að hér sé verið að gefa í skyn að konur eigi nú að hugsa um fólk sem ekki getur eignast börn, áður en þær íhuga hvort þær vilji ganga með börn eða ekki. Mér finnst það bara virkilega ljót taktík, ég verð að segja það. Mér finnst hún hundaflautuleg. Það er auðvitað hægt að sverja það bara af sér að verið sé að halda því fram, en ég vil halda því til haga að Miðflokkurinn er með tillögu sem leggur til að borga konum fyrir að vera staðgöngumæður. Útungunarvélar. Fyrir að ganga með barn sem þær vilja ekki ganga með og fá borgað fyrir það. Mér finnst það ógeðslegt, svo ég komi því nú að. (Gripið fram í: Og hana nú.) — Og hana nú. Nákvæmlega.

Svo vil ég snúa mér að aðeins öðru máli. Ég á ekkert rosalega mikinn tíma eftir, en ég á örugglega eftir að halda fleiri ræður um þetta mál. Komið hafa fram hugleiðingar um hvenær líf kviknar og hvenær einstaklingur verður til og hver sé sjálfsákvörðunarréttur konunnar gagnvart barninu og hvað með pabbann og allt það. Ég vil halda því til haga að það hefur verið rætt í fleiri áratugi og bara mjög lengi, skulum við segja, ef ekki árhundruð. En núna höfum við alla vega fallega stofnun sem heitir Mannréttindadómstóll Evrópu og fallegan samning sem heitir mannréttindasáttmáli Evrópu. Þar kemur fram í 2. gr. að allir hafi meðfæddan rétt til lífs. Komið hefur mjög skýrt fram í dómasögu Mannréttindadómstóls Evrópu, sem ég tek mikið mark á, að konan hafi sjálfsákvörðunarrétt yfir sínum eigin líkama og að hagsmunir föður víki fyrir hagsmuni þeirrar konu, eða hagsmunir þess sem kom fóstrinu fyrir, skulum við segja, þurfa að víkja fyrir hagsmunum konunnar sem gengur með fóstrið. Hann hefur ekki ákvörðunarrétt um líkama kvenna, því miður. Svoleiðis er það bara, svona eru mannréttindin. Mér þykir leitt að upplýsa ykkur um þetta, en þannig er réttur til lífs túlkaður og þannig er sjálfsákvörðunarréttur kvenna túlkaður. Þetta hefur verið rætt mjög lengi, fram og til baka. Það virðist vera komin nokkuð mótuð niðurstaða í þetta mál. Við ráðum okkar líkömum sjálfar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Og svo að lokum um annað mannréttindamál vegna þess að þau eru mér mjög kær. Það varðar þá umræðu sem verið hefur um fósturskimun og að konur velji að fara í þungunarrof eftir að í ljós kemur að barn er alvarlega fatlað og hvers vegna við gerum ekki einhverjar undantekningar og af hverju við stoppum þetta ekki fyrr, og alla þessa hluti. Rætt hefur verið um hvort það sé ekki einhvers konar aðför að fötluðu fólki vegna þess að sá möguleiki sé til staðar að konur geti ákveðið að fara í þungunarrof eftir að í ljós kemur að barnið er alvarlega fatlað eða eitthvað slíkt.

Mig langar að segja: Í núgildandi lögum er það þannig að löggjafinn veitir undantekningu frá þeirri meginreglu að ekki megi fara í þungunarrof eftir 12. viku ef barn er talið alvarlega fatlað samkvæmt skimun. Með því ákvæði er löggjafinn að segja að það sé afsökun, það sé ástæða til að víkja frá meginreglunni um að almennt eigi ekki að fara lengra en að 12. viku, eins og staðan er núna, að fóstur sé alvarlega fatlað eða líklegt að það sé það. Það finnst mér miklu verra réttarfarslega séð gagnvart viðhorfum löggjafans til fatlaðs fólks en að konur ráði því bara sjálfar, vegna þess að þrátt fyrir allt getum við ekki tekið þetta val frá konunni. Okkur kann að finnast það siðferðislega ámælisvert að velja þessa leið, en við getum samt ekki neytt konur til þess að ganga með líklega alvarlega fatlað barn. Það hlýtur að vera þeirra eigin ákvörðun.

Mér finnst ekki í lagi að löggjafinn segi: Jú, það er afsökun að fara í þungunarrof ef fóstur er líklegt til að verða alvarlega fatlað. Mér finnst heldur ekki í lagi af löggjafanum að taka þennan ákvörðunarrétt af konunni vegna þess að það felur vissulega í sér miklar skuldbindingar og það geta ekki allir hugsað sér standa undir því, en tölfræðin hefur sýnt okkur að minni hluti þeirra sem fá upplýsingar um alvarlega fæðingargalla, alvarlega litningagalla, velja að fara í þungunarrof eftir að hafa fengið þær upplýsingar. Þeir eru í miklum minni hluta. Mér finnst fólk gera konum allt of mikið upp skoðanir í þessari umræðu, gefa sér að fái þær ekki tilsetta ráðgjöf muni þær gera einhverja vitleysu. Verði þeim leyft að ákveða þetta sjálfar muni þær taka einhverjar hræðilegar ákvarðanir og skunda beint niður á Landspítala í skemmtiferð í þungunarrof.

Mér finnst þetta þessum talsmönnum ekki til framdráttar. Mér finnst að það ætti að treysta konum fyrir yfirráðum á sínum eigin líkama, enda eigum við okkar líkama sjálfar (Gripið fram í: Heyr, heyr.)og ég er komin með hundleið á einhverjum köllum sem ætla að segja mér eitthvað annað. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)