149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[22:36]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Hér er fjallað um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2019. Ég vil koma aðeins inn á 12. gr. en þar er verið að lækka framlag fjármálafyrirtækja til Fjármálaeftirlitsins. Þetta er svolítið athyglisvert og virðist vera samkvæmt þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að lækka gjöld og skatta á fjármálafyrirtæki á sama tíma og það er ekki hægt að afnema skerðingar til öryrkja og eldri borgara. Þetta er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í þeim efnum.

Mig langar að koma nánar að því sem segir í greinargerðinni með 12. gr., en lækkunin hefur í för með sér að það á að ganga á eigið fé Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið hefur verið rekið fyrir gjöld sem fjármálafyrirtæki og tryggingafélög greiða til eftirlitsins en nú á að lækka þau gjöld og ganga á eigið fé stofnunarinnar. Ég tel það ranga forgangsröðun og skil ekki alveg hvað ríkisstjórninni gengur til með því. Sú hætta er fyrir hendi að þetta dragi úr eftirlitinu í framtíðinni, mikilvægu eftirliti með fjármálastofnunum. Ég tel þá ráðstöfun mjög óskynsamlega. Í framtíðinni þarf ríkissjóður væntanlega að fara að leggja þessari stofnun fé og borga þar með bönkunum og tryggingafélögunum hvað það varðar. Þetta er sem sagt ákvæði sem ég tel afar óskynsamlegt og skil ekki alveg á hvaða vegferð ríkisstjórnin er í því.

Mig langar að koma inn á fleiri greinar, eins og 21. gr. þar sem er verðlagsuppfærsla á sóknargjöldum. Hún er einungis 0,32% á meðan almenna verðlagsuppfærslan er 2,5%. Ég skil ekki alveg hvers vegna er ekki hægt að hafa verðlagsuppfærsluna 2,5% eins og ætti að vera hvað sóknargjöldin varðar.

Síðan er lækkun í starfsendurhæfingarsjóð sem er mjög mikilvægur sjóður, til að mynda í ljósi þess að verið er að hjálpa fólki að komast aftur út á vinnumarkaðinn, t.d. einstaklingum sem búa við örorku o.s.frv. Þarna er verið að lækka framlag til fagaðila. Það væri fróðlegt að vita hvort sú ráðstöfun sem slík auki ekki á vandann og kostnað samfélagsins um leið. Það hefur margsinnis verið sagt úr þessum ræðustól að það sé mikið áhyggjuefni hvað öryrkjum fjölgar og útgjöld til öryrkja aukast. Ef ekkert verður að gert verða útgjöld til öryrkja orðin 90 milljarðar á ári árið 2030, eftir einungis örfá ár, ef svo má segja. Þarna eru úrræði, starfsendurhæfing er úrræði til að reyna að draga úr slíku, en á sama tíma ákveður ríkisstjórnin að minnka framlög til þessa mikilvæga málaflokks. Ég held að alveg ljóst sé að þetta kemur til með að auka vandann ef eitthvað er. Þetta er ein af þeim forgangsröðunum sem ég skil ekki alveg hjá ríkisstjórninni.

Samkvæmt lögum eiga allir atvinnurekendur og þeir sem standa undir sjálfstæðari atvinnustarfsemi að greiða 0,13% af stofninum til iðgjaldsins en hérna er verið að framlengja ákvæði um að þeir greiði 0,10%, ekki 0,13%. Ef vilji ríkisstjórnarinnar stendur til þess að lækka þetta mikilvæga gjald ætti að gera það í fjárlagafrumvarpinu. Þarna er á ferðinni forgangsröðun og áhersla ríkisstjórnarinnar sem ég tel afar dapurlega og ég skil ekki alveg á hvaða vegferð ríkisstjórnin er hvað þetta varðar.

Síðan langar mig að nefna 25. gr. sem lýtur einnig að gjöldum til endurhæfingarsjóðsins sem ég fór í áðan.

Það eru fleiri ákvæði sem ég vildi nefna í þessu sambandi, til að mynda kolefnismálin. Verið er að hækka kolefnisgjaldið. Við í Miðflokknum höfum bent á að kolefnisskatturinn er illa ígrundaður og honum er ekki jafnað niður á landsmenn á sanngjarnan hátt. Þess vegna verður að endurskoða þann skatt með tilliti til þess að hann komi jafnt niður á landsmenn. Það er ákveðið stefnuleysi af hálfu ríkisstjórnarinnar þegar kemur að þessari skattheimtu, sem er mjög mikilvægt að fara yfir og endurskoða.

Svo er verið að hækka gjöld fyrir eldri borgara á dvalarheimilum. Það eru því ýmis gjöld sem koma illa við þá sem hafa lítið á milli handanna og er það að sjálfsögðu dapurlegt.

Ég vil enda þetta á því að segja að forgangsröðun hér er mjög einkennileg, eins og það að lækka gjöld á fjármálafyrirtæki. Því var haldið fram í ræðustól í morgun, í störfum þingsins, að þetta væri algjörlega nauðsynlegt til að ná niður vaxtastiginu í landinu. Ég get ekki séð að það að lækka framlag fjármálafyrirtækja til Fjármálaeftirlitsins eigi eftir að breyta vaxtastiginu í landinu. Ég held að það sé alveg kristaltært að svo er ekki. En það er stefna ríkisstjórnarinnar að lækka gjöldin á fjármálafyrirtæki á sama tíma og við horfum upp á það að öryrkjar fá ekki það sem þeim var lofað á nýju ári og stór hópur eldri borgara býr við fátæktarmörk, eins og kom fram í ræðu í störfum þingsins hjá hv. þm. Ellerti B. Schram og formanni Félags eldri borgara.