149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

íslenska sem opinbert mál á Íslandi.

443. mál
[23:02]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. „Ef íslenskan hverfur tapast þekking og við hættum að vera þjóð“ er haft eftir Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta. Á tímum örrar alþjóðavæðingar og tæknibyltinga er mikilvægt að undirstrika stöðu þjóðtungunnar. Vaxandi áhrif tölvu- og samskiptatækni á daglegt líf krefjast aðgerða af hálfu stjórnvalda til að tryggja að tungumál líkt og íslenska séu gjaldgeng í nútímasamskiptum. Nauðsynlegt er að snúa vörn í sókn fyrir íslenskuna svo að hún megi þróast og dafna til framtíðar. Ábyrgðin á því viðvarandi verkefni hvílir hjá stjórnvöldum og atvinnulífi hvers tíma sem og hverjum og einum þeim sem byggir þetta land.

Það eru forréttindi fyrir fámenna þjóð að tala eigið tungumál. Íslenskan skipti sköpum í sjálfstæðisbaráttu okkar og athyglisvert er hversu mikla áherslu forystufólk á þeim tíma lagði á mikilvægi tungumáls og menntunar. Það er ekki síður í ljósi þessa sem við höfum ákveðið að setja íslenskuna í öndvegi, á þessu mikla merkisári í sögu þjóðarinnar, og snúa vörn í sókn í hennar nafni.

Íslensk stjórnvöld hafa kynnt heildstæða áætlun sem miðar að því að styrkja stöðu íslenskunnar. Aðgerðirnar snerta ólíkar hliðar þjóðlífsins en markmið þeirra ber að sama brunni, að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum samfélagsins. Þeim til grundvallar er eindreginn vilji til að tryggja framgang tungumálsins.

Nú þegar er frumvarp í meðferð þingsins sem nýr að stuðningi við útgáfu bóka á íslensku. Með samþykkt þess verður sett á laggirnar stuðningskerfi sem felur í sér 25% endurgreiðslu vegna beins kostnaðar við útgáfu íslenskra bóka. Áætluð framlög eru um 400 millj. kr. frá og með árinu 2019. Að auki verður stofnaður sérstakur barna- og unglingabókasjóður en yngri kynslóðin hefur bent ötullega á að auka þurfi framboð af slíkum bókum. Mikilvægi bókaútgáfu er óumdeilt fyrir varðveislu íslenskunnar. Staðreyndin er sú að læsi barna okkar hefur hrakað í alþjóðlegum samanburði. Að auki hefur bóksala í landinu dregist verulega saman, þ.e. um 36% á síðustu tíu árum. Ástæður þess má einna helst rekja til breyttrar samfélagsgerðar og örrar tækniþróunar því að aukið framboð lesefnis og myndefnis á netinu hefur leitt til þess að lestur bóka á íslensku hefur minnkað. Þessi þróun skapar ákveðna ógn við tungumálið og við því verður bókaþjóðin sjálf að bregðast.

Á næstu vikum verða áform um stuðning við einkarekna fjölmiðla kláruð. Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki við miðlun upplýsinga og sem vettvangur umræðu og skoðanaskipta. Þeir spegla sögu okkar og styðja við og viðhalda íslenskri tungu. Að því sögðu liggur fyrir að rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hér á landi er erfitt, m.a. vegna samkeppni á innlendum og alþjóðlegum auglýsingamarkaði og örrar tækniþróunar. Til þessa hafa einkareknir fjölmiðlar á Íslandi verið þeir einu á Norðurlöndum sem ekki njóta opinbers stuðnings. Við viljum skapa frjóan jarðveg fyrir fjölbreytta flóru fjölmiðla hér á landi, fjölmiðla sem miðla vönduðu fréttaefni á íslensku og efla þannig lýðræðislega umræðu.

Virðulegur forseti. Til að tryggja að íslenska verði gjaldgeng í stafrænum heimi, rafrænum samskiptum og upplýsingavinnslu sem byggist á tölvu- og fjarskiptatækni er nú unnið eftir verkáætluninni Máltækni fyrir íslensku 2018–2022. Í því felst að þróa og byggja upp tæknilega innviði sem nauðsynlegir eru til þess að brúa bil milli talmáls og búnaðar, svo sem talgreini, talgervil, þýðingarvél og málrýni/leiðréttingarforrit. Verkáætlunin er að fullu fjármögnuð í núverandi fjármálaáætlun, en áætlaður heildarkostnaður ríkisins við hana er 2,2 milljarðar kr. á tímabilinu.

Í kvöld er ég komin til að mæla fyrir þingsályktunartillögu um nauðsyn þess að efla íslenska tungu sem opinbers máls á Íslandi. Sú þingsályktunartillaga rammar inn okkar heildstæðu stefnu í málefnum íslenskunnar. Helstu markmið tillögunnar eru þrjú, þ.e. að íslenska verði notuð á öllum sviðum samfélagsins, að íslenskukennsla verði efld á öllum skólastigum ásamt menntun og starfsþróun kennara og að framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi verði tryggð. Til að ná þeim markmiðum eru gerðar tillögur að 22 aðgerðum sem vinna á að á næstu þremur árum. Þær aðgerðir sem lagðar eru til snerta velflest svið þjóðfélagsins og fer þar fremst tillaga um vitundarvakningu um mikilvægi íslenskrar tungu. Sú vitundarvakning er reyndar þegar hafin því að á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember sl., notaði ég tækifærið og kynnti hana undir yfirskriftinni Áfram íslenska. Hinar aðgerðirnar varða menntun og skólastarf, menningu, tækniþróun, aðgengi, nýsköpun, stefnumótun, stjórnsýslu, atvinnulíf o.fl.

Virðulegur forseti. Íslenskan er lifandi samskiptatæki og okkar sjálfsagða mál. Vitundarvakning og heildstæð nálgun af því tagi þarf að eiga sér stað sem víðast í samfélaginu og því verður á næstunni leitað eftir víðtæku samstarfi um hana, m.a. við stofnanir, atvinnulíf og félagasamtök. Við getum öll tekið virkan þátt í því að þróa íslenskuna, móta hana og nýta á skapandi hátt. Framtíð íslenskunnar er í okkar höndum og á okkar vörum. Hún er full af spennandi áskorunum og tækifærum. Vinnum að því saman að allt sé hægt á íslensku.