149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

rammasamkomulag milli Grænlands/Danmerkur, Íslands og Noregs um verndun loðnustofnsins og stjórnun veiða úr honum.

448. mál
[23:09]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd rammasamkomulag milli Grænlands, Danmerkur, Íslands og Noregs um verndun loðnustofnsins og stjórn veiða úr honum, sem var undirritað fyrir hönd Íslands 21. júní á þessu ári.

Þetta nýja samkomulag um loðnuveiðar leysir af hólmi eldri samning frá árinu 2003. Í því felst að hlutur Íslands í heildarafla loðnu lækkar úr 81% í 80% en hlutur Noregs minnkar úr 8% í 5% frá fyrri samningi. Hlutur Grænlands aftur á móti hækkar úr 11% í 15%. Gert er ráð fyrir að samningsaðilar geti breytt efni viðauka á árlegum samráðsfundi ríkjanna um loðnustofninn ef samningsaðilar sem hagsmuna hafa að gæta samþykkja það.

Samningaviðræður milli þeirra ríkja sem eiga hagsmuna að gæta vegna veiða úr loðnustofninum og skilgreind eru sem strandríki, þ.e. Grænlands, Noregs og Íslands, hafa staðið yfir frá árinu 2016. Á viðræðufundi í London dagana 18.–21. júní á þessu ári náðist niðurstaða um nýtt þríhliða samkomulag milli Íslands, Grænlands, Danmerkur og Noregs um skiptingu leyfilegs hámarksafla og fyrirkomulag kvótaúthlutunar.

Forsögu samningaviðræðnanna má rekja til lífsferilsskýrslu um loðnustofninn sem út kom árið 2016. Samkvæmt skýrslunni hafa umtalsverðar breytingar orðið á lífsferli loðnu og er hún nú talin vera um 75–95% eftir árabilum af sínum lífsferli í grænlenskri lögsögu en samkvæmt skýrslunni er loðnu ekki að finna í lögsögu Jan Mayen.

Í kjölfar skýrslunnar settu fulltrúar Grænlands fram þá kröfu að hlutdeild Grænlands í heildarafla loðnu yrði yfir helmingur heildaraflans á vertíðinni. Jafnframt óskuðu grænlensk yfirvöld eftir auknum aðgangi að íslenskri lögsögu til loðnuveiða fyrir sín skip. Fulltrúar Íslands töldu þessar kröfur óraunhæfar og vísuðu m.a. til þess að skýrslan væri ekki í samræmi við þær tímaforsendur sem strandríkin lögðu upp með, auk annarra veigamikilla raka.

Þar sem ný lífsferilsskýrsla sýndi að loðnan væri ekki í lögsögu Jan Mayen voru uppi sjónarmið um að Noregur ætti ekki rétt til hlutdeildar í loðnuveiðum ríkjanna. Afstaða Íslands er sú að Noregur skyldi áfram vera samningsaðili enda gæti hegðun og göngumynstur loðnu átt eftir að breytast í framtíðinni og hún gæti gengið aftur í lögsögu Jan Mayen. Samkomulagið staðfesti með formlegum hætti að ákvörðun heildarafla á hverri vertíð byggir á langtímanýtingarstefnu. Alþjóðahafrannsóknaráðið hefur staðfest að þessi nýtingarstefna sé í samræmi við viðmið um ábyrgar veiðar, sjálfbærni stofnsins og varúðarsjónarmið.

Með þessari nýtingarstefnu er staðfest sú samstaða strandríkjanna sem ríkt hefur frá árinu 2015 að stunda ekki ósjálfbærar sumarveiðar á loðnu. Þessi samstaða þýðir að nær engin loðna er lengur veidd í fiskveiðilögsögu annarra ríkja en Íslands. Samkomulagið gerir ekki ráð fyrir öðrum breytingum á fyrirkomulagi kvótaúthlutunar. Ísland er því t.d. áfram heimilt, komi í ljós að hlutur Grænlands eða Noregs veiðist ekki að fullu, að veiða það magn sem óveitt er. Ísland þarf þó að greiða bætur vegna slíkra veiða ef grænlensk og norsk skip ná ekki að veiða sína hlutdeild vegna síðbúinnar ákvörðunar um leyfilegan hámarksafla. Í samkomulaginu er bótaskylda þó miðuð við að ákvörðun um heildarafla sé tekin 5. febrúar eða síðar á árinu. Slíku tímamarki var ekki fyrir að fara í fyrri samningi.

Skilyrði fyrir tvíhliða aðgangi að fiskveiðilögsögu samningsaðila og tæknilegum takmörkunum koma fram í viðaukunum II, III og IV við samkomulagið. Fjöldi norskra skipa sem samtímis fá leyfi til að veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands takmarkast eins og áður við 30 skip. Aðgangur grænlenskra skipa er nánast óbreyttur. Aðilar samkomulagsins lýsa yfir þeim vilja að eiga náið samstarf um frekari rannsóknir á loðnustofninum. Þá inniheldur samkomulagið skýrari ákvæði um skýrsluskil og miðlun upplýsinga um afla og framsal aflahlutdeildar en fyrri samningur.

Samkomulagið er ótímabundið en uppsegjanlegt með einnar vertíðar fyrirvara. Það tók gildi til bráðabirgða við undirritun en mun öðlast gildi endanlega þegar stjórnskipulegum fyrirvörum hvers lands um sig hefur verið fullnægt.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.