149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er ákveðin stjórnmálamenning, hugsa ég, í hverju samfélagi þar sem stjórnmálamenn tileinka sér orðfæri sem venjulegt fólk kannast kannski ekki við úr daglegu lífi. Hvenær fagnar maður svo sem að eitthvað hafi gerst eða harmar að eitthvað hafi gerst við matarborðið? Maður talar sem stjórnmálamaður. Auðvitað er þetta tilkomið vegna þess að við viljum tala skýrt og við lærum ákveðið tungumál og ákveðna framkomu sem er hugsuð til þess að við getum talað við ofboðslega fjölbreyttan og stóran hóp fólks á máli sem allir skilja.

Eitt af því sem fylgir ákveðinni tegund af stjórnmálamenningu, og ég tel að sé tilfellið á Íslandi, eru ákveðnar leikreglur. Hvað þykir í lagi? Hvað vekur almenna hneykslan? Hvað þykir töff? Hvað þykir snjallt? Því miður er eitt af því sem virðist þykja svolítið töff, svolítið snjallt í íslenskri stjórnmálamenningu og þótt víðar væri leitað, að geta snúið út úr hlutum með mjög glæsilegum hætti. Maður rekst oft á það hér í pontu, en það er þá vanalega af svo lítilli stærðargráðu að maður er ekki alveg viss um hvort viðkomandi hafi raunverulega misskilið það sem sagt var eða hvort hann er vísvitandi að snúa út úr eða hafi einhvern veginn ekki haft fyrir því að hugsa vegna þess að það hentaði honum ekki að hugsa, það hentaði betur að misskilja eitthvað.

En þetta er óheiðarlegt og við eigum ekki að líta á það sem einhverja pólitíska herkænsku. Við eigum að líta á þetta sem óheiðarleika, alveg eins og við lítum á lygi sem óheiðarleika. Að snúa út úr því sem fólk segir er óheiðarlegt. Að gera fólki upp skoðanir sem það hefur ekki er óheiðarlegt. Auðvitað gerum við öll af og til eitthvað óvart og við verðum að sýna umburðarlyndi gagnvart því. Við verðum líka að laga okkar eigið siðferði að því að gera sem allra minnst af því og þegar við stöndum sjálf okkur að verki við að gera eitthvað slíkt eigum við að skammast okkar pínulítið og reyna að gera betur næst. Það er það sem mér finnst vanta í íslenska stjórnmálamenningu, upp á virðingu Alþingis að gera og þótt víðar væri leitað. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)