149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Hvað ætlum við að gefa þjóðinni okkar í jólagjöf? Það er búið að slengja í lás öllum möguleikum til þess að bæta hag okkar minnstu bræðra og systra. Fjárlögin fyrir árið 2019 hafa verið afgreidd, fjáraukinn verður tekinn út núna á næstunni. Það er ekki möguleiki að bæta kjör þeirra fyrr en árið 2020, það er búið að slengja öllu í lás.

Í morgun hafði samband við mig kona sem er að vinna hjá góðgerðarsamtökum. Það voru 120 einstaklingar sem komu til hennar í gær og þáðu gjafakort, Bónuskort. Hún sagði að það væri sárara en tárum tæki í rauninni hvað eymdin hefði vaxið ótrúlega mikið á árinu 2018.

Við fengum 181.000 krónur í jólabónus, við þingmenn. Ég veit hvað ég ætla að gefa í jólagjöf. Ég skal sýna ykkur það, hæstv. forseti. Ég tók út jólabónusinn minn og ég skora á alla að gera slíkt hið sama því að við höfum efni á því að kaupa gjafakort fyrir fátækt fólk og rétta það til góðgerðarsamtaka og ganga á undan með góðu fordæmi. Gleðileg jól. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)