149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ekkert mál hefur borið hærra undanfarið en þá umræðu sem átti sér stað á dögunum á Klaustri bar. Þær samræður sem þar áttu sér stað rötuðu í fjölmiðla og höfðu áhrif á pólitíska umræðu og störf Alþingis og gera enn. Áhrifin eru reyndar ekki nærri öll fram komin að mínu mati því að nú liggur fyrir að fjórir þeirra þingmanna Miðflokksins sem tóku þátt í þessum skelfilegu umræðum á Klaustri bar þetta kvöld, hafa tekið ákvörðun um að gera kröfu um bætur á hendur þeim sem að upptökunni stóð. Það verður ekki hjá því komist að lýsa bæði furðu en líka skömm á þeirri ákvörðun.

Við erum hér að tala um atvik þar sem forseti Alþingis þurfti að biðja bæði þing og þjóð afsökunar. Í mínum huga lýsir það algjöru skilningsleysi á alvarleika málsins og þeirri stöðu sem þessi fjórmenningar hafa komið sér í, að fara fram með þeim hætti sem þeir gera nú.

Að mínu mati er þetta enn og aftur tilraun til að drepa málinu á dreif, beina athyglinni annað og reyna um leið að komast hjá því að axla ábyrgð á eigin orðum og gjörðum. Það er þessum þingmönnum hreint ekki til sóma. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)