149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Mig langar eins og einhverjir hv. samþingmenn mínir hafa gert bæði í dag og í gær að koma hér aðeins orðum að nýrri hvítbók um fjármálakerfið. Eins og þingheimur veit kom hún út á dögunum og er um margt ágæt. Það er gott að fá á einn stað þær mörgu hugmyndir sem þar eru dregnar fram og verður ágætistól fyrir okkur að vinna með í þeirri vinnu sem fram undan er þegar kemur að fjármálakerfinu.

Það er sem sagt margt ágætt þarna en mér finnst ýmislegt sem kemur fram í skýrslunni vekja upp miklar spurningar og hvetja sérstaklega til mikillar umræðu. Það þarf t.d. að ræða mjög vel spurningar um eignarhald á fjármálastofnunum. Þegar ég las hvítbókina fannst mér á köflum að verið væri að ræða um stefnu fyrrverandi ríkisstjórnar þegar kemur að fjármálakerfinu og vísa til þess sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum um þau mál.

Í þessari umræðu er gríðarlega mikilvægt að við höfum öll í huga að meiri hluti þjóðarinnar hefur sýnt sig vilja fyrst og fremst gagnsæi þegar kemur að fjármálakerfinu og líka þegar kemur að eignarhaldi fjármálakerfisins. Hann er einnig jákvæður í garð eignarhalds ríkisins. Það þýðir ekki endilega að ríkið eigi að eiga aðra hverja fjármálastofnun en við skulum hafa það í huga þegar við tökum ákvarðanir okkar og þegar við ræðum hvernig eignarhaldi ríkisins á fjármálastofnunum eigi að vera fyrir komið.

Þá er eitt sem ég hefði viljað fá betri og ítarlegri umfjöllun um í hvítbókinni og það er hugmyndin um samfélagsbanka. Það er eitthvað sem ég held að við eigum að hafa í huga að er gríðarlega spennandi og jákvætt fyrirbæri sem hefur hlotið ágætishljómgrunn á meðal þjóðarinnar og er aldeilis einnar messu virði að ræða hvort hægt sé að koma á fót hér.