149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. 6. desember sl. féll dómur Hæstaréttar um aflahlutdeild í makríl. Sjávarútvegsráðherra hefur sagt að dómurinn kalli á endurskoðun á reglum um stjórn makrílveiða og fjármálaráðherra hefur sagt að vonandi verði hægt að leysa málið með viðræðum. Í dómnum kemur fram að áfrýjendur segjast hafa orðið fyrir hagnaðarmissi upp á 2,7 milljarða. Samkvæmt dómi Hæstaréttar hefur ráðuneytið átt að gefa út aflahlutdeild í makríl árið 2011 sem byggð var á veiðum þriggja næstliðinna ára, 2008, 2009 og 2010. Áfrýjandi segir aflahlutdeildina hafa átt að vera 15,7%.

Á árunum fyrir hið eftirminnilega ár 2008 fór að verða vart við makríl á fiskimiðum fyrir austan og norðan land. Mikil aukning varð á lönduðum makríl árin þar á eftir. Það var hvalreki fyrir okkur sem þjóð að fá þessa fisktegund inn í lögsöguna á þessum efnahagslega erfiðu árum. Þess er vert að geta að fyrstu árin var makríll meðafli með síldveiðum og var að mestu nýttur í bræðslu. Verðmæti afla sem bræddur er er að öllu jöfnu minni en sá afli sem unninn er til manneldis. Voru það m.a. rökin fyrir því að úthluta afla til manneldisvinnslu. Lítil þekking á makrílvinnslu var í landinu á þessum tíma og rökin fyrir því að hleypa fleirum að veiðunum voru mikil þrátt fyrir að þær útgerðir sem hófu veiðar 2011 hefðu ekki aflareynslu. Þær höfðu hins vegar margar úrræði til að vinna makríl til manneldis.

Við munum eftir deilu um magn veiðiréttar úr þessum deilistofni við nágrannaþjóðir okkar. Hluti af því sem Norðmenn og fleiri þjóðir settu út á var hvernig umgengnin um aflann var á þessum tíma, þ.e. mesta magninu var landað til bræðslu, yfir 70%.