149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[16:30]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hér erum við að ræða eitt mikilvægasta plaggið sem er til umfjöllunar á hverju þing, þ.e. tekjuhlið fjárlaganna. Nú er nýbúið að samþykkja fjárlög, önnur fjárlög núverandi ríkisstjórnar, en þau fyrstu voru sem kunnugt afgreidd á miklum hlaupum og ríkisstjórnin skýldi sér að hluta til á bak við það og sagði að hv. þingmenn skyldu bara bíða og sjá hvort ekki kæmi á daginn meiri sókn.

Að mati Samfylkingarinnar hefði þurft að ráðast í miklu meiri fjárfestingar í bæði heilbrigðis- og menntakerfinu og samgöngumálum, sem er reyndar hugmynd að bæta úr með einhverjum veggjaldahugmyndum sem eru enn óræddar. En við þurfum fyrst og fremst að spýta meira í og leggja meira fé í skólana okkar, í menntun, í nýsköpun, í vísindi, í alla þá þætti sem eru nauðsynlegir til að bregðast við þeirri gríðarlega breyttu framtíð sem við munum þurfa að horfast í augu við á næstu árum. Ekkert af því er gert. Vinstri græn klóra sig reyndar út úr vandanum með því að segja með óljósum hætti að þau trúi ekki á stórar kerfisbreytingar til langs tíma nema um þær séu mjög víðtæk sátt.

Hvað felst svo í þeirri sátt, herra forseti? Jú, að sætta sig við skattstefnu Sjálfstæðisflokksins. Í hugmyndum manna um samneysluna, um skattkerfið, birtist í rauninni með skýrustum hætti skoðun flokka á samfélaginu og viðhorf til jöfnuðar eða ójöfnuðar. Hægri menn tala gjarnan um að skattar eigi að vera í lágmarki, þeir séu neyðarbrauð sem sé fyrst og fremst hugsað til að afla lágmarkstekna til að standa undir nauðsynlegustu þjónustunni. Á meðan tölum við félagshyggjufólk um að skattar þurfi að gera hvort tveggja. Þeir þurfa auðvitað að standa undir slíkri þjónustu en skattkerfið er líka öflugt tæki, og kannski það skilvirkasta, til að dreifa auðnum á réttlátan hátt á milli fólks. Þar þarf í sjálfu sér ekki að fara lengra en til franska hagfræðingsins Thomasar Pikettys, sem hæstv. forsætisráðherra hefur ítrekað vitnað í og lýst aðdáun á. Hann talar einmitt um þetta, að það þurfi núna á okkar tímum að grípa til róttækra aðgerða til að hindra að auðurinn safnist sífellt á færri hendur.

Ég er meira að segja hræddur um það núna þegar við horfumst í augu við nýja tækni, stafræna byltingu, þar sem mannshöndin verður ekki aðeins ónauðsynleg í mjög mörgum tilvikum heldur mannshugurinn líka og fleiri og fleiri framleiðslustörf verða í rauninni leyst af hólmi án aðkomu okkar mannanna. Auðvitað skapast ný störf og önnur færast til en við þurfum að glíma við þá staðreynd að svona verður þetta í mörgum fyrirtækjum. Við þurfum á einhvern hátt að fara að hugsa skattkerfið okkar þannig að þeir sem eiga framleiðslutækið, þeir sem eiga fjármagnið, verði ekki enn hraðar enn ofsaríkari en hingað til og almenningur sitji eftir. Svo ekki sé talað um ríkisvaldið sem þarf á því að halda að hafa tekjur sem það getur notað til að tryggja velferðarkerfi, heilbrigðiskerfi, fólk, öryrkja sem jafnvel fæðist inn í þennan heim án nokkurra möguleika á að sjá sér farborða nokkurn tímann á ævinni en eiga samt sem áður hluta af öllum sameiginlegum auðlindum mannsins og eiga þess vegna rétt á að fá að lifa með reisn. Þá tala ég ekki síst um aldraða sem hafa lagt á sig ómælda vinnu við að byggja upp og koma því samfélagi sem við lifum í í það horf sem það er, ekki síst á Íslandi, landi sem var í rauninni eitt fátækasta land Evrópu fyrir nokkrum áratugum en er nú orðið auðugt. Þetta fólk á líka skilið að það geti lifað sín síðustu æviár á viðburðarríkan hátt eftir atvikum en fyrst og fremst þannig að það þurfi ekki að kvíða hverjum degi.

Herra forseti. Á Íslandi er ástandið því miður þannig að jafnvel fólk á meðaltekjum, svo ekki sé talað um fólk á lágum tekjum, gerir ekki mikið meira en rétt að ná endum saman frá mánuði til mánaðar. Ef eitthvað hendir, ef eitthvað gerist, ef bíllinn bilar, ef heimilistæki bilar, ef úlpa týnist eða gleraugu brotna er fjölskyldan komin í vandræði. Það vindur síðan upp á sig vegna þess að taka þarf lán á háum vöxtum, margfalt hærri vöxtum en erlendis, sem leiðir kannski hugann að því að við ættum ekki að vera að setja alltaf ný og ný fjárlög við þær aðstæður að búa við íslenska krónu sem nýtist þeim auðugustu best en setur almenningi í landinu í stórkostleg vandræði með reglulegu millibili.

Talandi um það þá lifum við á tímum þar sem lítill hluti Íslendinga, nokkur prósent Íslendinga, eiga stóran hluta af öllum auðnum og geta leikið sér með þá fjármuni, fært þá út úr krónuhagkerfi yfir í aðra mynt og til baka eftir því hvernig vindar blása og sífellt hagnast á uppsveiflum og niðursveiflum krónunnar á meðan almenningur er fastur. Almenningur er einmitt að upplifa það núna, almenningur sem ekki hefur notið fordæmalítils hagvaxtarskeiðs sem staðið hefur í mörg ár. Nú þegar við erum á leiðinni niður brekkuna herðast ólarnar hjá því fólki, vextir hækka, gengið sígur, matvaran hækkar í verði, íbúðalánið rýkur upp og sú eign sem birtist í tölum sem meðaltekjufólk í landinu á er í raun þegar öllu er á botninn hvolft ekki handfastir peningar heldur peningar sem hafa orðið til vegna þess að íbúðaverð hefur hækkað svo. Það verður mjög fróðlegt að sjá á næstu árum hvernig þetta hlutfall breytist, þegar skuldahlutfall húsnæðisins hækkar með lánunum.

Oddný G. Harðardóttir, hv. þm. Samfylkingarinnar, hefur lagt fram mjög vandað nefndarálit þannig að ég ætla ekki að dvelja lengi við einstaka þætti. Þó hlýt ég að nefna að öll félagshyggjuöfl, allir félagshyggjuflokkar með reisn, væru að berjast fyrir gjörbreyttu skattkerfi. Ríkisstjórn félagshyggjuflokka hefði strax sett í stjórnarsáttmála einhvers konar áform um slíka breytingu, um sókn til félagslegs stöðugleika og jöfnuðar til að bregðast við þeim blikum sem eru á lofti á vinnumarkaðnum.

Það þýðir ekkert fyrir ríkisstjórnina að koma núna þegar fer að vetra og segja: Við munum bregðast við og við munum skoða kröfur ykkar eða við munum skipa hóp um húsnæðismál. Það er einfaldlega farið að verða of seint, fyrir utan það að metnaðarfullt félagshyggjufólk notar ekki slík mál sem skiptimynt í kjarasamningum, jafnvel til þess að þrýsta niður eðlilegum launakröfum verkafólks.

Samfylkingin hefur lengi talað fyrir því að hér eigi að vera þrepaskiptur skattur þar sem þeir sem verst hafa kjörin borga lægstu skattana en við sem erum með feikilega há laun leggjum hlutfallslega meira af mörkum. Staðreyndin er hins vegar sú að frá 1994 hafa skattar á lægstu laun hækkað á meðan skattar á hæstu launin hafa lækkað. Það er óviðunandi. Það má hugsanlega vera að ekki sé hægt að breyta því í einu vetfangi en ég sé ekki í stefnu ríkisstjórnarinnar, undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur og Vinstri grænna, nein merki einu sinni um að verið sé að skipta um kúrs, að verið sé að stefna frá samfélagi aukins ójöfnuðar og að réttlátara samfélagi, þvert á móti.

Samfylkingin hefur líka talað fyrir því að við eigum að nota tilfærslukerfi eins og barnabætur og vaxtabætur sem eru mjög áhrifarík og skilvirk leið til að aðstoða þá sem eru í mestum vanda. Þó að það sé ágætt hjá ríkisstjórninni að breyta barnabótum þannig að þær skerðist ekki undir lágmarkslaunum er það ekki nóg vegna þess að skerðingarhlutfallið færist til og það er allt of mikið sem leggst á millitekjufólk. Svo má benda á að tillögurnar sem birtast í þessu plaggi um barnabæturnar eru tillögur sem voru felldar hjá Samfylkingunni fyrir ekki svo löngu síðan.

Það jákvæða er að verið er að lækka tryggingagjald. Tryggingagjaldið er of hátt og leggst oft með óréttmætum hætti á lítil og meðalstór fyrirtæki, oft á fyrirtæki í nýsköpunar- og hugvitsgeiranum sem við þurfum svo mikið á að halda að örvist, þar sem veltan er meira og minna laun og miklu hærri en í stærri framleiðslugreinum. Þannig að við styðjum það. Jafnvel þó að skrefið sé ekki stórt er það skiljanlegt vegna þess að það er mjög dýrt að hreyfa við því kerfi.

Við getum líka fagnað því að persónuafslátturinn hækki. Við gleðjumst yfir því að þrátt fyrir allt hafi verið horfið frá því að lækka neðra þrepið sem hefði gefið mér þrisvar sinnum meira en fólki á lágmarkslaunum, það er þó betra að gera með því að hækka persónuafsláttinn. En sú hækkun er ekki meiri en það, herra forseti, að hún nemur 500 kr. á mánuði. Nú getur hver velt því fyrir sér hvað fæst fyrir 500 kr. á Íslandi í dag þar sem verð á matvælum og nauðsynjavörum er miklu hærra en ella vegna þess að ríkisstjórnin neitar að horfast í augu við það að við þurfum að skoða möguleika á öðrum og stöðugri gjaldmiðli sem myndi færa okkur lægra vöruverð og lægri vexti.

Talandi um vexti þá tala Alþýðusambandið, verkalýðshreyfingin, vinnumarkaðurinn allur og atvinnurekendur um að forsenda fyrir því að hér náist sátt á vinnumarkaði í vetur sé átak og stórsókn í húsnæðismálum. Ég held hins vegar að við verðum að fara að hverfa frá því að vera alltaf í átökum, vera alltaf í vertíðargír og reyna frekar að byggja upp stöðugan íbúðamarkað til framtíðar sem er blandaður, sem er blanda af íbúðum í einkaeign og leigu með tryggum skilmálum fyrir leigjendur. Það er langtímaverkefni en ríkisstjórnin er að bregðast við því núna með því að setja á fót starfshóp. Samfylkingin lagði fram þingsályktunartillögu í húsnæðismálum í átta liðum fyrir einum og hálfum mánuði síðan og hæstv. félagsmálaráðherra lét ekki einu sinni sjá sig við umræðuna, ekki þegar mælt var fyrir málinu. Hvað var hann að gera? Jú, hann var á fundi með öðrum ráðherrum að ræða það að nú þyrfti að fara að leysa húsnæðismálin. Þremur vikum seinna var tilkynnt að búið værir að skipa starfshóp.

Þetta eru allt tillögur sem við vitum að geta tekið breytingum inn í þingsal, enda var hugmyndin á bak við þær ekkert annað en að leggja gott til málanna, því að við vitum að það þarf að leysa þetta. Svo að ég nefni fjórar helst er það í fyrsta lagi startlán að norskri fyrirmynd til að gera ungu fólki sem á ekki efnamikla foreldra möguleika á að eignast sína fyrstu eign, vegna þess að staðan er í dag þannig að það er fullt af ungu fólki sem borgar jafnvel meiri leigu en það þyrfti að borga ef það ætti húsnæði.

Aðrir vilja leigja og við sjáum að hreyfanleiki fólks er meiri, fólk getur í rauninni unnið hvar sem er í heiminum. Þetta er allt annað en þegar við vorum ung. Þess vegna eigum við að bæta inn meira fé til stofnframlaga þar sem við byggjum undir leigufélög sem reka sig án þess að vera hagnaðardrifin. Ég held að það sé mjög brýnt.

Í þriðja lagi held ég að nauðsynlegt sé að setja eitthvert skikk á það hvaða ábyrgð sveitarfélög bera þegar kemur að félagslegu húsnæði, sem er húsnæði fyrir þá allra veikustu í samfélaginu. Nú er það undir hælinn lagt. Það er Reykjavík og Akureyri sem standa sig langbest og síðan er Kópavogur sæmilegur og Hafnarfjörður og kannski einhverjir fleiri, önnur sveitarfélög vanrækja þetta algerlega. Við viljum einfaldlega að það verði þannig að tiltekið hlutfall íbúða í öllum sveitarfélögum sé í eigu sveitarfélaga í félagslegum rekstri.

Í fjórða lagi er það byggingarreglugerðin. Mig langar að dvelja aðeins við hana því að hv. þm. Birgir Þórarinsson var þar. Það er alveg rétt að einfalda þarf byggingarreglugerðina. Það er þó ekki sama hvernig við gerum það. Við megum ekki endalaust gera það með því að skera niður gæði. Við gætum komið til móts við þau sjónarmið sem hann talaði fyrir, t.d. raðsmíði sem yki framleiðni með því að samræma við það sem er á hinum Norðurlöndunum. Ég er ekki viss um að margir átti sig á því að menn krefjast hærri inngangshurða á Íslandi en t.d. í Svíþjóð, hærri lofthæðar á Íslandi en annars staðar. Þetta hljómar sakleysislega en ef þú ætlar að panta partý í eina blokk á Íslandi þarftu að borga miklu meira vegna þess að það þarf að sérsmíða fyrir okkar markað. Af hverju getum við ekki verið með þetta svipað og annars staðar? Um leið og auka þarf byggingarhraða þá búum við við eitraðan kokteil á Íslandi þegar kemur að byggingarmálum. Framleiðni er lægri, töluvert lægri en t.d. í Noregi, á sama tíma og fjármagnskostnaður er mikið meiri. Þetta er ávísun á hærri byggingarkostnað en þyrfti að vera og svo leggst það ofan á að sá sem kaupir þessa tilbúnu íbúð þarf líka að kaupa hana á hærri vöxtum en nágrannar okkar annars staðar á Norðurlöndunum.

Ég á ekki mikið eftir þannig að ég held að réttast sé að enda á því sem ég hef þrisvar drepið á í ræðunni, þótt það sé ekki til umræðu hér verður samt alltaf að vera að tala um þetta: Það er ólíðandi að við getum ekki farið að taka umræðu um gengismál. Ég hjó eftir því að Ragnar Ingólfsson, formaður VR, talaði um þetta. Hann sagði að vissulega yrði það ekki til umræðu í kjarasamningunum í vetur en verkalýðshreyfingin yrði að fara að ræða þau mál. Við verðum öll að fara að gera það vegna þess að þetta er stórt lífskjaramál. Þetta er ekki síst lífskjaramál fyrir þá sem minnstu tekjurnar hafa í landinu. Ég veit í rauninni ekki hvaða sérhagsmuni er verið að verja með því að neita þessu sífellt vegna þess að þetta myndi örugglega gera hæstv. fjármálaráðherra töluvert auðveldara fyrir að leggja fram áætlanir um stöðugan rekstur á Íslandi til lengri framtíðar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)