149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

umboðsmaður barna.

156. mál
[17:14]
Horfa

Frsm. velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir ræðuna. Ég gleymdi reyndar í ræðu minni áðan að þakka hv. velferðarnefnd fyrir vinnuna við þetta mál og geri það þá hér, þó að það sé ekki kannski eðli andsvara. Það er full ástæða til að þakka það.

Ég vil hins vegar taka undir þessa hugmynd hv. þingmanns um að við ættum að skoða þann möguleika að setja upp ungmennaráð Alþingis líkt og umboðsmaður barna og fleiri aðilar eru með. Það gæti verið skemmtileg hugmynd. Það er sjálfsagt hægt að þróa eitthvað slíkt í tengslum við skólaþingið sem þegar er rekið. Nú ætla ég ekki að segja að ég hafi orðið fyrir einhverri mikilli upplifun við að hitta þau börn og ungmenni sem komu á fund velferðarnefndar en engu að síður opnar það dálítið augu manns fyrir því að börn og ungmenni sjá sannarlega hlutina ekki alveg sömu augum og við sem eldri erum. Og jafnvel þó að maður hafi sjálfur notið þeirrar gæfu að fá að ala upp börn er það ekki það sama og að þiggja ráð frá börnum. Ég held þess vegna að þetta geti verið ljómandi góð hugmynd.

Ég er hins vegar ekki alveg til í svona á fyrstu stigum að kaupa hugmyndina um að flytja endilega barnaþingið hingað vegna þess að það yrði kannski aðeins stærri viðburður en myndi rúmast í þessum þingsal. Ég vonast til þess a.m.k. að það verði fjöldaþátttaka á slíkri samkomu þannig að þar verði bæði börn og fullorðnir að tala saman.