149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

umboðsmaður barna.

156. mál
[17:18]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við fjöllum um frumvarp sem lýtur að því að styrkja stöðu barna í íslensku samfélagi og stuðla þannig að áframhaldandi innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna.

Mig langar að þakka nefndinni fyrir góða yfirferð á frumvarpinu. Ég tók til máls við 1. umr., bara lítillega, af því að ég er einn af talsmönnum barna á þingi og verð að segja að það er með skemmtilegri hlutverkum sem maður fær hér sem þingmaður að gegna því starfi. Það er svo áhugavert að sjá hvað þetta unga fólk hefur mikið fram að færa og talar um það að við þurfum í auknum mæli að fara að setja upp barnagleraugun, eins og þau hafa orðað það. Við höfum sambærilegar hugmyndir þegar við tölum um kynjajafnrétti og setjum upp kynjagleraugun. Ég held að margir þingmenn hafi tileinkað sér það í auknum mæli.

Það er líka áhugavert að horfa alltaf á öll mál svolítið út frá augum barnanna. Ég tek undir með hv. þingmanni sem sagði áðan að það er eitt að ala upp barn og annað að þiggja ráð frá börnum. Mér finnst gaman að koma inn í þessa umræðu núna vegna þess að rétt áðan voru Samtök íslenskra framhaldsskólanema að heimsækja okkur í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Ég veit að þau ungmenni hafa heimsótt flesta þingflokka, ef ekki alla, aðeins að fara yfir það starf sem þau eru að vinna. Þau voru m.a. að segja að þau væru alltaf til staðar og til reiðu til að veita okkur ráð, til að taka þátt í því sem við erum að gera hér. Ég spurði einmitt hvort þau kæmu stundum að því að gefa umsagnir um frumvörp. Jú, það tíðkaðist, en kannski allt of sjaldan, kannski einmitt vegna þess að við gleymum hér á þinginu að vísa mikilvægum málum sem fjalla um börn til hagsmunasamtaka eins og þessara. Ég held að það megi gjarnan vekja okkur aðeins til umhugsunar um það. Við megum festa það betur í huga þegar við fjöllum um slík mál.

Þess vegna fannst mér gott að sjá það að nefndin hefði fengið á sinn fund ráðgjafarhóp umboðsmanns barna og ungmennaráð Barnaheilla sem ég tel mjög mikilvægt.

Ég verð líka að segja að mér finnst mjög fallegt að Landssamband eldri borgara hafi líka veitt umsögn um málið. Mér finnst fara mjög vel á því að við séum að tala um annars vegar yngsta hópinn okkar og svo elsta hópinn okkar og hve allir virðast vera sammála um mikilvægi þessa.

Mig langaði aðeins að koma inn á hugmyndina um barnaþing. Ein stúlka sem ég hitti áðan, þegar við vorum að ganga hér um þinghúsið og við vorum að spyrja hvort þau hefðu komið í þinghúsið, sagði: Já, ég kom einmitt hingað í opið hús, mér finnst ótrúlega gaman að fá að koma inn í þingsalinn. Við vorum að útskýra það að yfirleitt þegar við tökum á móti gestum og ef ekki er þingfundur í gangi eru jú opnar hurðir og maður getur sýnt börnunum hérna inn í salinn. En hingað má enginn stíga inn, alla jafna. Mér finnst það hafa tekist svo vel til hjá okkur 1. desember þegar við opnuðum húsið og ég vil gjarnan hvetja til þess að við gerum það oftar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Þess vegna finnst mér mjög góð hugmynd þegar kemur að umræðu, hvort sem það eru barnaþing eða einhverjir fulltrúar frá barnaþingi kæmu hingað að ávarpa okkur eða uppfræða okkur um það sem átt hafi sér stað á barnaþingi eða eitthvað þess háttar, að þá færi mjög vel á því að gera það hér í þessum sal.

Við erum ekki síður að fjalla um lýðræðið og ég veit að margir skólar standa sig mjög vel í því þegar kemur að lýðræðisfræðslu. En samt sjáum við dvínandi kosningaþátttöku, sem er mjög sorglegt því að þegar maður ræðir við börn og ungmenni hafa þau yfirleitt mjög miklar skoðanir á flestum hlutum.

Ég held að þetta sé ein af þeim aðgerðum sem við gætum beitt til að auka lýðræðisþátttöku ungs fólks og mig langar að hvetja til þess að það sé skoðað sérstaklega.

Ég tek líka heils hugar undir það sem sagt er í nefndarálitinu þar sem nefndin beinir því til yfirstjórnar Alþingis að taka tillit til tímasetningar barnaþings við skipulagningu starfsáætlunar svo sem flestum alþingismönnum verði gert kleift að sækja þingið. Ég held að það sé mjög mikilvægur punktur.

Annars þakka ég velferðarnefnd fyrir þessa vinnu. Mér finnst þetta gott mál og ánægjulegt að sjá það þegar við erum með svona góð mál og breiða samstöðu. Ég held að allir skrifi undir nefndarálitið, fulltrúar frá öllum flokkum, og það er vel þegar við getum verið með slík mál. Vonandi sjáum við enn fleiri slík mál á næstu dögum og næstu misserum.