149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

157. mál
[17:37]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka framsögumanni fyrir að leggja þetta nefndarálit fram fyrir okkar hönd í velferðarnefnd. Það er fagnaðarefni að niðurstaða skuli fengin í samstöðu í nefndinni en niðurstaðan fékkst svo sem ekki alveg þrautalaust því að það eru veikleikar í þessu mikla og góða verkefni sem við erum að stuðla að, að efla notendastýrða persónulega aðstoð. Við viljum að því verkefni vegni vel. En það eru hindranir í veginum eins og komið hefur fram og við óskum áfram eftir því að undanþáguákvæði fái að gilda, þ.e. ákvæði um hvíldartíma. Við óskum eftir því að það verði gefinn ársfrestur til að búa þannig um hnútana að þetta falli að almennri löggjöf. Vonandi tekst það. Það er brýnt að unnið verði ötullega að því. Ég vil þakka meðnefndarmönnum mínum fyrir samstarfið til að ná þessu fram því að það eru miklar væntingar í hópi þeirra sem búa við fötlun um að þessari þjónustu vaxi fiskur um hrygg og að samningum fjölgi. Það verður hin mikla áskorun í okkar starfi og í okkar þjónustu á næstu misserum og næstu árum.