149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

umboðsmaður Alþingis.

235. mál
[17:52]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa spurningu, sem er góð og þörf.

Ég veit ekki betur en að í forsætisráðuneytinu sé í vinnslu einhvers konar þingmál, frumvarp, um einmitt vernd uppljóstrara, sem ég held að sé full ástæða fyrir okkur á Alþingi að fara vel yfir af því að við þurfum auðvitað að reyna að hvetja þá sem búa yfir mikilvægum upplýsingum sem varða almannahag til að koma fram með slíkar upplýsingar, hvort sem upplýsingarnar varða eitthvað saknæmt eða ef upplýsingarnar varða eitthvað varðandi ríkisrekstur, eins og hv. þingmaður kom inn á, sem væru þá upplýsingar sem myndu berast ríkisendurskoðanda. Upplýsingarnar geta innihaldið mjög margt, hvort tveggja lögbrot, hvort sem um er að ræða fjárhagslegar upplýsingar eða annað, en líka ýmislegt sem væri ámælisvert.

En hér er um að ræða einstaklinga, þ.e. í þessu frumvarpi, sem eru frelsissviptir á einhvern hátt, annaðhvort í fangelsum eða hreinlega sambýlum og eru á lokuðum deildum og þess háttar.

Ég tel fulla ástæðu til og bíð satt að segja spennt eftir því frumvarpi sem mér skilst að sé í vinnslu í forsætisráðuneytinu, af því að nútíminn er einhvern veginn þess eðlis að upplýsingar þurfa að fá að koma fram án þess að sá sem greinir frá komi sér í klípu.