149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

umboðsmaður Alþingis.

235. mál
[17:54]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og tek eiginlega undir það sem fram kom í máli hennar.

Ég held að mjög mikilvægt sé að þessi mál séu í lagi og ég held að það sé einnig rétt og verður forvitnilegt að sjá þegar frumvarp kemur fram um þetta almennt. En ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt fyrir þingið að hafa það öruggt varðandi þá eftirlitsaðila sem eru á vegum þingsins, sem eru þá annars vegar umboðsmaður Alþingis og hins vegar Ríkisendurskoðun, að þeir geti óhræddir leitað til þeirra stofnana og komið fram upplýsingum. Oft er það þannig og svo sem á mjög víða við að sjálfsögðu, að menn eru mjög oft að komast að upplýsingum í gegnum störf sín, þannig að störf fólks geta verið í hættu ef það nýtur ekki þessarar verndar.

En ég er svo sem ekki með neina spurningu, held að þetta sé verðugt viðfangsefni, en ítreka aftur að ég er mjög ánægður með þetta ákvæði í lagafrumvarpinu sem varðar uppljóstrara.