149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

Þjóðarsjóður.

434. mál
[18:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni þegar talað er um mikilvægi þess að breið samstaða sé um allan megintilganginn. Það er alveg ljóst að hér er um að ræða almenn lög sem byggja á meirihlutavilja þingsins og ég hef ávallt horft til þess að gríðarlega mikilvægt væri að það væri breið samstaða sem myndi lifa kosningar og meirihlutaskipanir Alþingis hverju sinni um grundvallaratriðin, m.a. um að menn féllu ekki í freistni til að grípa í sjóðinn til þess að sinna ákveðnum verkefnum.

Það er hins vegar svo að við stöndum á ákveðnum tímamótum núna. Við erum í miklu átaki til að breyta um takt í uppbyggingu hjúkrunarheimila, við erum t.d. að koma á nýju íbúðafyrirkomulagi þar sem áður voru margir saman í íbúðum. Það kallar á gríðarlegar fjárfestingar. Við erum sömuleiðis í fyrsta skipti að fara að sjá stórar arðgreiðslur hefjast út úr Landsvirkjun. (Forseti hringir.) Við erum að fara að uppskera í fyrsta skipti og þá er spurning hvort við viljum taka fyrstu uppskeruna og sá til langrar framtíðar (Forseti hringir.) með því að leggja áherslu á nýsköpun. Það er grunnhugsunin að baki bráðabirgðaákvæðum.