149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

Þjóðarsjóður.

434. mál
[18:40]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina á frumvarpinu sem við ræðum um Þjóðarsjóð og stofnun hans. Ég verð að játa að ég hef nokkrar áhyggjur af því að í hugmyndunum um Þjóðarsjóð eins og þær birtast í frumvarpinu sé lögð of mikil áhersla á viðbrögð við náttúruhamförum þegar upphaflegu hugmyndirnar um Þjóðarsjóð snerust um að byggja upp viðnám gegn fjárhagslegum áföllum og kannski sér í lagi af því að við höfum nú þegar ofanflóðasjóð sem hefur heimild til að taka þátt í greiðslu kostnaðar við hættumat vegna eldgosa, vatnsflóða og sjávarflóða og svo Náttúruhamfaratryggingu Íslands.

Ég velti því fyrir mér varðandi þær upphaflegu áherslur sem lagt var af stað með árið 2017 hvort og hvers vegna hafi verið vikið af þeirri braut og nánar inn í einhvers konar náttúru- áfallasjóð. Væri ekki meira viðeigandi þegar við erum að koma á fót Þjóðarsjóði að leggja meiri áherslu í fjárfestingarkaflanum á nýsköpun og græna fjárfestingu og kannski einhvers konar framtíðarfjárfestingar? Mig langar svolítið að heyra skoðun hæstv. ráðherra á því.