149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

Þjóðarsjóður.

434. mál
[18:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi áföllin sem við getum þurft að horfast í augu við. Þau geta sannarlega verið vegna hamfara í náttúrunni og ég hef rakið í máli mínu að það er ekki allt tryggt af Náttúruhamfaratryggingu Íslands, meginstofn, vegakerfi t.d., allar afleiddar afleiðingar af því að veitumannvirki sem tryggð eru af Náttúruhamfaratryggingu Íslands laskast eða lamast, það getur orðið gríðarlegt afleitt tjón sem ríkissjóður myndi stíga inn í, en það er á engan hátt verið að einangra áfallið við það sem gerist í náttúrunni. Það geta verið annars konar áföll, til að mynda eins og ég hef rakið um netárásir á innviði landsins í tæknimálum og annað þess háttar. Það getur gerst af mannavöldum.

Aðalatriðið er að við erum að tala um einhverja meiri háttar viðburði sem ekki er með sanngjörnum hætti hægt að ætlast til að ríkissjóður bregðist við án þess að það leiði annaðhvort til talsvert lakari lífskjara í landinu — við erum þá að tala um meiri háttar niðurskurðaraðgerðir sem þyrfti að grípa til til þess að bregðast við — eða þá til mikillar skuldasöfnunar sem þýddi að við værum að velta atburðunum inn í framtíðina á framtíðarkynslóðir. Þetta er því ekki bundið við það að eitthvað gerist í náttúrunni eða af völdum eldsumbrota eða slíks heldur að þetta séu meiri háttar atburðir.

Varðandi fjárfestingarstefnuna er lagt upp með það hér að sjóðurinn geti orðið það mikill að umfangi að óheppilegt sé að hann sé fjárfestur innan lands. Tekjustreymi Landsvirkjunar, sem við horfum fyrst og fremst til, er að mestu frá erlendum aðilum sem eru með starfsemi á Íslandi og ég hef rakið, og er farið ágætlega yfir það í greinargerðinni, hvers vegna við teljum ráðlegt að fjárfesta utan landsteinanna.