149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

Þjóðarsjóður.

434. mál
[18:53]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Það frumvarp sem við ræðum til laga um Þjóðarsjóð er með þeim hætti að vanda þarf til verka. Ég hygg að nær allir stjórnmálaflokkar hafi á einn eða annan hátt lagt fram einhvers konar hugmyndir að þjóðarsjóði þannig að fyrir fram má búast við því að ágæt samstaða verði um stofnun sjóðsins. Þó er rétt að drepa aðeins í 1. umr. á kosti og galla, vegna þess að ekkert er gallalaust. Spurningin er hvort kostirnir yfirvinni gallana. Það má t.d. velta fyrir sér hvort ekki komi til greina í stað þess að stofna þjóðarsjóð á þann hátt sem hér er lagt til að greiða hreinlega arðinn af orkufyrirtækjunum, arðinn sem orkufyrirtækin greiða, beint til heimilanna, að í raun fái hver og einn Íslendingur beinan hlut í útgreiddum arði. Þetta á ekki síst við ef við göngum út frá því að nýting auðlindanna sé ábyrg og sjálfbær.

Við getum líka velt því fyrir okkur að við nýtum arðgreiðslu til að standa undir velferðarkerfinu og fjármögnun á innviðum velferðarkerfisins. Við getum hugsað okkur að arðgreiðslur orkufyrirtækjanna verði nýttar til að létta álögur á fyrirtæki og almenning. Þetta er umhugsunarvert þegar við höfum í huga að skattbyrði á Íslandi, ekki síst ef við tökum tillit til iðgjaldagreiðslna í lífeyrissjóði, er með því allra þyngsta sem þekkist í OECD. Ég þreytist seint á því, herra forseti, að vekja athygli á því að þyngri skattbyrði hér á landi en í helstu samkeppnislöndum dregur úr samkeppnishæfi okkar, hamlar nýsköpun, dregur úr fjárfestingum og hefur almennt neikvæð áhrif á lífskjör til framtíðar.

Nú er það svo að einn styrkleiki efnahagslífs okkar er stærð lífeyrissjóðakerfisins sem er hlutfallslega það næststærsta í heiminum, u.þ.b. 156% af landsframleiðslu, og til samanburðar er í lagi að hafa í huga að norski olíusjóðurinn, sem vitnað var til, er u.þ.b. 250% af landsframleiðslu Noregs. Það er óhætt að ganga út frá því að lífeyrissjóðirnir muni eflast, styrkjast og stækka á komandi árum og áratugum, ekki síst í ljósi þess að verið er að hækka iðgjaldagreiðslur verulega inn í sjóðina, upp í 15,5% af launum. Þeir eru auðvitað til sem halda því fram að það sé kannski orðið þannig að iðgjaldagreiðslur séu að verða of háar.

Lífeyrissjóðirnir munu þurfa að fjárfesta í ríkari mæli erlendis. Í rauninni má búast við því að hreint innflæði í sjóðina þurfi meira eða minna að leita út fyrir landsteinana að óbreyttu. Þetta er ekki síst mikilvægt til að tryggja góða eignadreifingu og draga úr áhættu þannig að við erum að tala um tugi milljarða á hverju ári. Í því sambandi er líka mikilvægt að hafa í huga, þó að það komi þessu máli ekki beint við, að við sem hér erum þurfum að fara að huga að möguleikum lífeyrissjóðanna til að taka þátt með beinum hætti í uppbyggingu samfélagslegra innviða, ekki síst með beinni aðkomu í formi eignarhalds.

Það hefur verið bent á að góð staða lífeyrissjóðanna, þrátt fyrir áföll sem þeir hafa unnið sig út úr, líkt og við flest sem betur fer, dragi að öðru óbreyttu úr þörfinni til að koma á fót þjóðarsjóði með þeim hætti sem lagt er til. Einnig má benda á að við eigum enn þá, eins og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra vék að, ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs sem nema u.þ.b. 620 milljörðum kr., um 24% af landsframleiðslu.

Í umsögn Samtaka atvinnulífsins í samráðsgátt stjórnvalda við frumvarpið er bent á að í fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023 sé miðað við að reiknaðir vextir ófjármagnaðra lífeyrisskuldbindinga muni hækka úr 15,2 milljörðum árið 2019 í 21,9 milljarða árið 2023. Að því leyti, þegar horft er til þess að við erum að greiða vexti af þeim ófjármögnuðu lífeyrisskuldbindingum, vaknar sú spurning hvort skynsamlegt sé að beina hugsanlegum arðgreiðslum af auðlindum, þá ekki bara arðgreiðslum orkufyrirtækja heldur getum við velt fyrir okkur hvort aðrar auðlindir eða auðlindarentur, eða hvaða orð við viljum nota, eigi ekki að fara í slíkt. — Á móti má hins vegar segja að tekist hefur að lækka lífeyrisskuldbindingar ríkisins verulega. Það hefur líka orðið gjörbreyting á skuldastöðu ríkisins og óhætt að lýsa henni sem hreinni byltingu. Heildarskuldir ríkisins nema núna u.þ.b. 850 milljörðum, rétt um 30% af landsframleiðslu, og hrein staða ríkissjóðs á grundvelli laga um opinber fjármál stefnir í að vera um 23%.

Ég vakti reyndar athygli á þeim staðreyndum fyrir nokkru í þessum ræðustól og fagnaði því, enda er ljóst að við erum hætt að ganga á lífskjör í framtíðinni og lífskjör barna okkar. Hugmyndin að baki Þjóðarsjóðnum er í sjálfu sér ekkert ósvipuð og rökin fyrir niðurgreiðslu skulda. Við ætlum að búa í haginn fyrir framtíðina, tryggja hlutdeild komandi kynslóða í nýtingu auðlinda og eiga borð fyrir báru. Við ætlum að búa til eins konar áfallavörn fyrir þjóðina. Við ætlum að koma á fót sjóði sem við teljum að geti á 15 árum, jafnvel hugsanlega skemmri tíma, orðið allt að 300 milljarðar. Það er skynsamlegt sem lagt er til í frumvarpinu, að sjóðurinn skuli ávaxta sitt pund í erlendum verðbréfum. Það er hins vegar vert að vekja athygli á því að við erum auðvitað þegar með tæki til að mæta óvæntum áföllum í formi Náttúruhamfaratryggingar Íslands, a.m.k. þegar kemur að náttúruhamförum. Þó að Þjóðarsjóðurinn kunni hugsanlega að koma þar að verki eru annars konar áföll þar sem hann getur líka komið til skjalanna. Það er hins vegar mikilvægt, eins og Náttúruhamfaratrygging Íslands bendir á í umsögn sinni í samráðsgáttinni, að gera skýran greinarmun á hlutverki Þjóðarsjóðs og Náttúruhamfaratryggingar Íslands, en heildargreiðslugeta trygginganna í einstökum stóratburði er um 73 milljarðar. Ríkið hefur auðvitað ákveðið val til um að mæta ófyrirséðu tjóni með sjóðsmyndun eða að vátryggja þá. Við þurfum að velta því fyrir okkur hvernig við samþættum annars vegar hlutverk Náttúruhamfaratryggingar Íslands og hins vegar Þjóðarsjóðsins, sem við vonum að þurfi ekki alveg að koma til en við þurfum að vera við öllu búin. Hvenær tekur Þjóðarsjóðurinn hugsanlega við af Náttúruhamfaratryggingu Íslands o.s.frv.? Það getur átt við þegar verður stórtjón á samgöngumannvirkjum sem Náttúruhamfaratrygging Íslands kemur ekki inn, en það verður þó að liggja fyrir og það er eitt af því sem þingið verður að velta fyrir sér.

Það er líka vert að vekja athygli á umsögn Samtaka iðnaðarins sem leggja áherslu á að við stofnun sjóðsins liggi fyrir skýr fjárfestingarstefna og að einnig verði að gæta jafnvægis milli söfnunar í sjóðinn og samkeppnishæfi Íslands í alþjóðlegu samhengi. Það er vert að undirstrika að það eru ákveðnar áhyggjur sem a.m.k. aðilar í atvinnulífinu hafa af því að arðsemiskrafa stjórnvalda, ríkisins, á orkuauðlindir verði svo mikil, svo há, að það leiði til umtalsverðrar hækkunar á raforkuverði og muni þar af leiðandi skerða samkeppnishæfi íslenskra fyrirtækja. Þetta er eitthvað sem við þurfum að velta fyrir okkur vegna þess að raforkuverð hefur verið eitt af því sem hefur gefið okkur samkeppnisforskot sem skiptir okkur verulega miklu máli, ekki síst í ljósi þess að aðgangur okkar að erlendum mörkuðum er kannski ekki jafn greiður og jafn ódýr og hjá mörgum öðrum þjóðum.

Stofnun Þjóðarsjóðsins er spennandi verkefni. Það er hins vegar vandasamt verkefni. Ég hafði ákveðnar efasemdir um stofnun slíks sjóðs, ekki síst þegar menn voru að velta fyrir sér að það væri skynsamlegt að vera með slíkan sjóð og nota hann í einhverja sveiflujöfnun í efnahagslífinu, sem ég vara við, en hugmyndafræðin sem hér liggur frammi virðist mér vera í flestu, ef ekki öllu, skynsamleg. Ég vara við þeim freistnivanda sem kann að liggja í framtíðinni. Sjóðurinn getur orðið öflugur og feitur og það verður freistnivandi hjá stjórnmálamönnum framtíðarinnar að breyta leikreglunum, alveg sama hversu vel við búum um hnútana, þannig að hægt verði að nota sjóðinn í öðrum tilgangi en upp var lagt með. Þess vegna er svo mikilvægt að við náum að mynda almennan skilning og almenna samstöðu, ekki bara í þingsal heldur meðal þjóðarinnar, á svipaðan hátt og Norðmönnum hefur tekist, (Forseti hringir.) þ.e. að Þjóðarsjóðurinn sé raunveruleg áfallavörn og ekki komi til greina meðal almennings að stjórnmálamenn eða aðrir sem koma að verki eftir 10, 20, 15 ár misnoti þann sjóð í pólitískum tilgangi.