149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

Þjóðarsjóður.

434. mál
[19:09]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um Þjóðarsjóð sem ég tel afar mikilvægt. Ég vil eiginlega taka undir það sem hv. þingmaður lauk máli sínu á, að ég tel einmitt að það skipti afar miklu máli að þessi sjóður verði aldrei til pólitískra afnota, ef svo má að orði komast.

Mig langar aðeins að rifja upp frá gamalli tíð. Fram kemur í ritinu Ganglera frá 1870 stutt ágrip af mannfækkun af hallærum þar sem farið er yfir þær náttúruhamfarir sem dunið hafa með reglulegu millibili á þjóðinni, eiginlega alveg síðan land byggðist. Í ritinu segir um árið 1783, með leyfi forseta:

„Eptir miðjan júní braust eldur upp úr Skaptárjökli, svo geysi mikill, að hann rann út sem straumur og eyddi 23 bæjum; heyrðust þá brestir miklir og landskjálftar; en eldur og sandrik var svo mikið að brennisteinsreykurinn barst yfir mestan hluta lands; sólin sýndist um hádag blóðrauð, og opt var svo mikil móða, að varla sást bæja á milli. Peningur varð horaður undan sumrinu og gulur á fótum og grönum, því að grasið varð gult af brennisteinsfalli. Fjallagrös og aðrar ætijurtir ónýttust, skógar eyddust og komu aldrei upp aptur, því víða mátti melja kvistina í höndum sjer ofan til miðs. Um sumarið varð heyskapur hinn bágasti, en þó verri að kostum; skáru þá flestir þriðjung til helming af pening sínum; um haustið lagði vetur að snemma, með hríðum og jarðbönnum, …“

Stuttu síðar segir, þegar ástandi landsins er lýst veturinn 1784, með leyfi forseta:

„Bjargarskortur var þá svo mikill, að allt var lagt sjer til munns er tönn festi á, svo sem horkjöt af hrossum, horn og skóbætur, og jafnvel hundar; fjell þá fjöldi manns úr hungri, megurð og annari vanheilsu, er leiddi af hallærinu.“

Svona heldur þessi hörmungarlestur áfram. Íslenskt þjóðfélag myndi ekki og lendir vonandi aldrei á slíkri vonarvöl aftur í dag, en við verðum að átta okkur á því að náttúrukraftarnir sem við búum við geta eyðilagt gríðarleg verðmæti á stuttum tíma. Við heyrum annað slagið og eiginlega of reglubundið fréttir af því að hin og þessi eldfjöll séu að búa sig undir gos. Katla, Bárðarbunga, Grímsvötn og Öræfajökull hefur verið að tútna út í meira en ár. Það hafa nefnilega stóráföll dunið á íslensku þjóðinni á 20. öld. Síldin hvarf, gosið í Heimaey, spænska veikin og það verða áföll í framtíðinni.

Það er þó kannski ánægjulegt í þessu öllu saman að við erum með vel fjármagnað lífeyriskerfi, miklu meira og betur statt lífeyriskerfi, sem fáar þjóðir geta státað af. Við erum líka að leggja til stórfé í framkvæmdir á næstu árum. Við erum að byggja nýtt sjúkrahús, við erum að leggja mikið í uppbyggingu vega og við gætum auðvitað talið lengi áfram.

Við erum líka að greiða inn á B-deild lífeyrisskuldbindinga sem þýðir að deildin fer ekki í þrot. En það er svo, eins og kemur fram í frumvarpinu, að ófyrirsjáanleiki og óviss stærðargráða slíkra stóráfalla er þess eðlis að það er nánast ómögulegt fyrir stjórnvöld að búa sig undir slíkar afleiðingar í fjárlagagerð, þ.e. þessari hefðbundnu fjárlagagerð, eða ríkisfjármálaáætlun eða almennri fjármálaáætlun til hefðbundins langs tíma, á annan hátt en kannski þann sem við erum hér að leggja af stað með, að standa fyrir slíkri sjóðsöfnun.

Í frumvarpinu segir, með leyfi forseta, að það þyki hyggilegt „að þessar nýju tekjur verði ekki nýttar eins og hver annar tekjustofn til þess að standa undir reglubundnum ríkisútgjöldum“. — Það er kannski orðið sem ég byrjaði á hér og hv. þingmaður á undan mér endaði á. — „Í stað þess verði þeim varið til að byggja upp fjárhagslegan viðbúnað í Þjóðarsjóði til að bregðast við ófyrirséðum áföllum og stuðla að efnahagslegu öryggi þjóðarinnar til framtíðar. Sömu rök eiga ekki að öllu leyti við um aðrar tekjur ríkisins af nýtingu auðlinda, svo sem nytjastofna sjávar, þar sem þær renna nú þegar í ríkissjóð og standa undir reglulegum útgjöldum.“

Ég tel að með frumvarpinu séum við svo sannarlega að búa í haginn fyrir framtíðina. Þetta frumvarp er liður í því að búa okkur undir framtíðina. Ég tel að við skuldum einfaldlega börnum og barnabörnum að þegar næsta stóráfall dynur yfir, hvort sem það er af völdum manna eða náttúruhamfara, verðum við að vera viðbúin og við munum vera viðbúin ef frumvarpið gengur eftir, því að það er alveg eins víst og himinninn er blár að á einhverjum tímapunkti, eins og ég sagði áðan, hvort sem það gerist á næstu 15 árum eða 30 árum eða 100 árum, lendum við í einhvers konar áfalli. Við þekkjum þessa sögu eins og ég rakti áðan. Það geta líka orðið efnahagsáföll eins og við munum væntanlega flestöll eftir fyrir tíu árum þegar við vorum að hefja samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eftir hrunið. Það hefði verið ágætt að eiga slíkan sjóð eins og hér er gert ráð fyrir að verði til. Þá hefði væntanlega ýmislegt verið með öðrum hætti en raun varð á.

Ég tel þetta mál mjög gott og ef forsendur standa verður búið að safna í þennan sjóð á bilinu 250–300 milljörðum eftir 20 ár. Það er tíundi hluti af landsframleiðslunni eins og hún er í dag og ef við gefum okkur að landsframleiðslan vaxi að meðaltali um 2% á þessu árabili gæti þetta orðið í kringum 5–6% af landsframleiðslunni árið 2038. En það er svo sem tíminn fyrir sér í því að ákveða hvert heppilegt hlutfall er í þessu. Aðalmálið er að hefjast handa og búa þannig um hnútana að þverpólitísk sátt ríki um að láta þennan sjóð vera nema nauðsyn krefji. Varðandi þau sjónarmið að safna þurfi upp í sjóðinn á löngum tíma til að hann hafi ekki ruðningsáhrif á gjaldeyrismarkaði held ég að það séu réttmæt sjónarmið.

Það er svo sem ágætlega um þetta búið í greinargerð frumvarpsins, en vissulega tel ég að nefndin eigi að fara yfir með hvaða hætti þetta verður gert, þ.e. hvort erlendar tekjur fari beint inn á erlenda innstæðureikninga ríkissjóðs og fari þar af leiðandi ekki í gegnum gjaldeyrisjöfnuðinn. Ljóst er að ef það á að takast að nýfjárfestingar lífeyrissjóða fari í auknum mæli í erlendar fjárfestingar, eins og við höfum talið afar æskilegt, verðum við að eiga nóg af gjaldeyri.

Sem betur fer er viðskiptajöfnuðurinn jákvæður í ár eins og síðustu ár og erlend staða þjóðarbúsins jákvæð sem nemur 13%. Það er ánægjulegt að Ísland er orðið lánveitandi í stað þess að vera lánþegi líkt og verið hefur síðustu áratugi. En það kemur líka fram svo sem í frumvarpinu að hægt er að fara aðrar leiðir ef vilji væri til þess að láta t.d. afgang safnast upp í innstæðureikningum ríkissjóðs, en þá er talið að ávöxtunin verði rýrari en ef við fjárfestum á erlendum mörkuðum. Eins og um er getið í frumvarpinu væntum við þess að við náum árangri í lækkun á skuldastöðu hins opinbera og að skuldabréfaútgáfa ríkissjóðs fari að nálgast það lágmark sem talið er heppilegt fyrir virknina á fjármálamarkaði í landinu.

Það er líka ágætlega vikið að óbeinum skuldum ríkissjóðs í þessum ófjármögnuðu lífeyrisskuldbindingum vegna eftirlaunaréttinda ríkisstarfsmanna. Það gæti alveg komið til álita að nýta viðbótartekjur frá orkufyrirtækjum til að mæta þeim. En það er líka vikið að því hvaða samkomulag hefur náðst við sveitarfélögin. Ég held að það sé og hafi verið af hinu góða. Hérna er rakin ástæða þess að sjóðnum var lokað og ríkisstarfsmenn færðu sig yfir í A-deildina. Það er líka rakið að þessi aðferðafræði hafi orðið til þess að við sitjum núna uppi með tugmilljarðahalla sem hefur myndast á tryggingafræðilegri stöðu deildarinnar og svo auðvitað aldurssamsetning sjóðfélaga og ríkissjóður talinn bera bakábyrgð fyrir þeim skuldbindingum. Þess vegna er þetta samkomulag, sem tók gildi árið 2017, afar gott. Eins og ég segi, ég held að okkur gangi ágætlega þar.

Frú forseti. Ég held að tilvist þessa sjóðs, þegar hann verður kominn á koppinn, komi líka til með að hafa jákvæð áhrif á íslenskt atvinnulíf. Það er þannig að myndarlegir varasjóðir skjóta sterkari stoðum undir lánshæfismat ríkissjóðs og auðvitað vonumst við til þess að lánshæfismatið smitist yfir á sveitarfélögin líka. Ég tek undir með þeim sem hafa talað á undan mér að þetta er mjög gott mál, það er bæði spennandi en það er líka vandasamt. Það á eflaust eftir að taka breytingum í nefndarmeðförum.

Ég tel það vera í anda félagshyggjunnar að á fyrstu árum sjóðsins verði hluta af fjármunum sem ættu annars að renna í sjóðinn varið í það mikla verkefni sem fyrir liggur í uppbyggingu hjúkrunarrýma um allt land og það er í þágu þeirrar kynslóðar sem hefur lagt grunninn að okkar hagsæld í dag.

Svo er auðvitað stóra málið verðmætasköpun framtíðarinnar sem felst m.a. í nýsköpun og hugviti og það er að mínu mati ótæmanleg auðlind. Ég sagði áðan að ég gerði ráð fyrir því að ef hagkerfið yxi um 2% á ári næstu 20 ár yrði þjóðarframleiðslan um helmingi meiri en hún er í dag. Það þýðir þá væntanlega að við þurfum með nýsköpun að finna þessi verðmæti og framleiða þau.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt miklu lengra, ég tel að við séum að stíga skref til góðs, sem kemur til með að skipta okkur miklu máli. Þó að safnist hægar í sjóðinn en ella til að byrja með eru þau verkefni svo brýn sem við stöndum frammi fyrir og við hyggjumst nýta auðlindarentuna að hluta til í, en til framtíðar litið held ég að okkur beri skylda til — eða ég er sannfærð um að okkur ber skylda til þess að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir.