149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

Þjóðarsjóður.

434. mál
[19:30]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að bæta við nokkrum orðum í umræðum um Þjóðarsjóð og taka í raun og veru undir orð margra hv. þingmanna sem hér hafa talað, einkum um hlutverk Þjóðarsjóðsins. Það er auðvitað freistandi að búa til einhvers konar sparibauk í alls konar málaflokka til að seilast í þegar þörf er á, einkanlega í samfélagslega uppbyggingu eða jafnvel menningarlega uppbyggingu eða nýsköpun og annað. Ég ætla alls ekki að fortaka fyrir það, svo fjarri því. Eins vil ég að minnast á, eins og aðrir hv. þingmenn hafa gert, að það eru önnur auðlindagjöld sem gætu komið til greina, önnur en af orkuframleiðslu til að byrja með. En mínar áhyggjur snúast fyrst og fremst, eins og líka hefur komið fram, um áföll af völdum náttúruvár. Það er margs konar náttúruvá sem við getum þurft að horfast í augu við. Þá er ég að meina af þeirri stærðargráðu að hvorki ofanflóðasjóður né Náttúruhamfaratrygging Íslands, annar eða hvortveggja, geti almennilega annað. Það er búið að nefna eldgos og jökulhlaup sem hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir ræddi rétt á undan mér og þarf ekkert að fjölyrða um það nema kannski að því leytinu til að nú eru eldfjöll að byggja sig upp til einhverra átaka af hugsanlegri stærðargráðu sem við höfum ekki séð lengi. Það mun auðvitað gerast í sögunni og hefur gerst í sögunni á nokkurra alda fresti að hér hafa orðið mjög alvarleg eldgos sem hafa haft í för með sér fjárhagstjón af stærðargráðu sem við höfum ekki séð áður.

Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um það en bendi líka á jarðskjálftann sem getur orðið á tveimur svæðum, annars vegar á Suðurlandsundirlendinu og hins vegar úti fyrir Norðausturlandi og jafnvel inni á Norðausturlandi. Þá er ég að tala um skjálfta af stærðargráðunni 6,5 í yfir 7 að stærð, sem er nokkuð sem við höfum ekki séð — jú, 6,5 í Suðurlandsskjálftanum síðast. Venjan er sú að þeir eru þá til friðs í nokkuð langan tíma en sagan kennir okkur að það verða jarðhræringar af stærðargráðunni yfir 7 á báðum svæðunum.

Ég ætla líka að bæta við að aukist gæti tíðni alvarlegustu stórflóða og stórviðra sem geta orðið á Íslandi með tilheyrandi tjóni á strandsvæðum, sem við höfum heldur ekki séð um alllanga hríð en líkur eru á með loftslagsbreytingum að geti aukist. Við erum að tala um náttúruvá eða áföll sem koma á áratuga eða alda fresti af mismunandi orsökum, þannig að ef við horfum til næstu fáeinna áratuga getum við þurft að bæta fyrir slíkt í samfélagi okkar.

Að því sögðu má líka benda á efnahagsleg áföll af ýmsum toga sem geta dunið yfir býsna óvænt. Það voru ekki margir sem bjuggust við hruninu stóra, þó að ég sé ekki að gera því skóna að það sé handan við hornið, svo langt því frá, en það er a.m.k. gleðilegt og framsýnt að hefjast handa við uppbyggingu Þjóðarsjóðs, fyrsta kastið, sem ég hef viljað leggja áherslu á með því að koma í pontu, sem varasjóð vegna náttúruhamfara en síðar er hægt að nota hann til ýmissa annarra brýnna verkefna þegar honum hefur vaxið almennilega fiskur um hrygg.

Ég vil ljúka máli mínu á því að hvetja til þess að sett sé einhvers konar markmið um það hversu há upphæð skuli vera þangað komin áður en við förum að hugsa fyrir öðru en áföllunum. Eins og landið liggur núna og eins og ríkissjóður er spenntur vegna úrbóta í innviðauppbyggingu og svo mörgu öðru og vegna þess að aðrir sjóðir eru þó ekki stærri en þeir eru er brýnt að muna eftir nákvæmlega því og horfa þá til þess hvaða marki við ættum að ná til að geta farið að nota fé úr þessum sjóði í annað en varnir gegn náttúruvá.