149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

Þjóðarsjóður.

434. mál
[20:13]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætlaði einmitt að nefna þetta með nefndirnar. Ég ætla ekki að draga þessa umræðu mikið á langinn en ég fagna því að málið sé opið. Hæstv. ráðherra leggur áherslu á að ná sátt um málið og það þýðir að við förum yfir öll sjónarmiðin með opnum huga. Hæstv. ráðherra leggur til að málið fari til efnahags- og viðskiptanefndar og sjálfri finnst mér það gaman, af því að ég sit þar og fæ þá að vinna með málið, en sem fjárlaganefndarmaður til margra ára hefði ég hins vegar haldið að eins og málið er vaxið væri það klárlega fjárlaganefndarmál. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi farið yfir þetta með þingfundaskrifstofunni með tilliti til skilgreiningar á hlutverkum nefndanna.