149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

losun fjármagnshafta.

[10:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að segja að áætlun stjórnvalda um afnám haftanna hefur gengið fullkomlega eftir. Það birtist í vaxandi trausti á íslenska ríkið og íslensk efnahagsmál. Ég vísaði í því samhengi til þess að lánshæfismatsfyrirtækin hafa stöðugt verið að hækka mat á Íslandi. Ég vísa til þess hvernig staðið var að umbúnaði við uppgjör gagnvart gömlu búunum og haftaafnámi í tengslum við það. Við höfum í grundvallaratriðum fyrst og fremst verið að leysa hér greiðslujafnaðarvanda sem var ógnvænlega stór en hefur smám saman verið að víkja og skuggi hans er orðinn tiltölulega stuttur. Þannig að ég vil halda því fram að þær aðgerðir sem eru næstar í haftaafnáminu séu eins konar lokaaðgerðir. Þær hafa ávallt verið fyrirséðar og eru í eðlilegu framhaldi af fyrri aðgerðum stjórnvalda sem allar hafa tekist vel.

Þegar hv. þingmaður segir að það sem hafi átt að gerast ef menn hlustuðu ekki á stjórnvöld hafi verið eitthvað allt annað en þetta, spyr ég: Hvað er hv. þingmaður að tala um? Er hv. þingmaður að tala um þjóðnýtingu eignanna? Er hv. þingmaður að tala um að við ætlum að halda hér restunum af höftunum út í hið óendanlega af því bara?

Þetta er allt í eðlilegu, rökréttu samhengi. Nú er komið að lokakaflanum. Við höfum ekki bara getu til að stíga það skref heldur er hægt að færa fyrir því rök að nú sé komið að því að við þurfum að stíga það skref, vegna þess að hinn undirliggjandi vandi hefur verið að víkja, greiðslujafnaðarvandinn hefur smám saman verið að hörfa og þar með helstu forsendur fyrir því að hafa höftin til staðar.