149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

losun fjármagnshafta.

[10:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem sagt var var að menn myndu mæta afgangi. Þeir sem ekki tækju þátt í útboðum fengu engin skýr svör um það á hvaða tímapunkti þeir myndu fá aðgang að þessum eignum. Það voru meginskilaboðin. Í því fólst engin hótun um að menn myndu koma miklu verr frá því, enda ekki í sjálfu sér lögmætt að stilla mönnum þannig upp við vegg að stjórnvöld ætluðu að búa þannig um hnútana að hirða af mönnum eignir. Það var einfaldlega sagt: Þetta mun mæta afgangi. Og nú höfum við leyst það sem á undan þurfti að koma og ytri aðstæður hafa sem betur fer þróast okkur í hag. Ef það hefði farið á hinn veginn er ég sammála hv. þingmanni um að þá kynnu enn að vera uppi aðstæður sem leiddu til þess að við gætum ekki verið að stíga þetta skref. En sem betur fer hefur flest fallið okkur í hag. Greiðslujafnaðarstaðan er góð. Við sjáum það t.d. núna á viðskiptajöfnuði þriðja ársfjórðungs þessa árs að hann er einn sá mesti sem við höfum séð í sögunni þannig að hættumerkin eru ekki lengur til staðar.