149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

skortur á hjúkrunarfræðingum.

[10:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að það er til staðar mönnunarvandi í heilbrigðiskerfinu en hann er ekki eingöngu vandi sem steðjar að okkur í nútímanum heldur sýnist mér að við megum gera ráð fyrir því að sá vandi fari vaxandi. Í því sambandi má hafa í huga að á árinu 2010 voru u.þ.b. fimm Íslendingar á vinnumarkaði fyrir hvern eldri borgara, þ.e. lífeyrisþega. Árið 2025 verða það fjórir, árið 2035 verða það þrír, þannig að við sjáum hvað þjóðin er að eldast og það mun auka mjög þrýstinginn á heilbrigðiskerfið í heildina.

Hv. þingmaður spyr hvort ekki sé til einföld lausn á því sem sé einfaldlega sú að hækka launin. Ég get sagt um það að að sjálfsögðu hljóta kjör stéttarinnar að skipta máli. Þau hafa stórbatnað á undanförnum árum. Það hefur eitthvað hjálpað til við að leysa vandann en ég er hræddur um að vandinn sé töluvert miklu stærri en þetta vegna þess að vandinn er ekki bara bundinn við Ísland. Það vantar þúsundir ef ekki tugi þúsunda af hjúkrunarfræðingum á Norðurlöndunum og sá vandi er vaxandi. Ef það væri til einföld lausn sem fælist í því að breyta launakjörum og reyna að vinna að einhverri sátt um að ein stéttin ferðist hraðar upp launastigann en hinar stéttirnar, sjúkraliðar, læknar, aðrir í heilbrigðisstétt, held ég að við værum löngu lögð af stað í þá vegferð. En vandinn er stærri og hann þarf að leysa með fjölþættum úrræðum.