149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

persónuupplýsingar í sjúkraskrám.

[10:45]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Að verða fyrir því að sjúkraskrár séu teknar ófrjálsri hendi og falsaðar, að verða fyrir því að sjúkraskrár séu birtar með kennitölu og öllu á netinu getur ekki verið ásættanlegt. En einkafyrirtæki eins og Fons Juris eru með þessar skrár sem eru notaðar af dómurum, embættismönnum, lögmönnum og laganemum og maður borgar fyrir að komast inn í þessar skrár og þar er allt galopið; kennitölur, allar upplýsingar, viðkvæmar persónuupplýsingar, viðkvæmar sjúkraupplýsingar. Síðan er annað í þessu, þeir stæra sig af því að hafa 100.000 samtengingar í kerfinu. Hvar er persónuverndin?

Á sama tíma er verið að tala um það að vernda afbrotamenn, að vernda þá og hafa nafnleynd á þeim sem brjóta af sér. Ég spyr hæstv. dómsmálaráðherra: Er þetta eðlilegt? Er ekki eðlilegt að byrja að tryggja þá sem geta ekki varið sig, veikt fólk, og sjá til þess að kennitölur þess og allar upplýsingar, mjög viðkvæmar persónuupplýsingar, séu ekki opnar fyrir hvern sem er ef hann bara vill borga fyrir þær? Á sama tíma og við verðum að átta okkur á því að við erum nýbúin að loka vef þar sem voru upplýsingar um tekjur manna. Það þótti alveg gjörsamlega óásættanlegt. Tekjur. Ég get ekki séð hvernig þær eiga að særa einn eða neinn en viðkvæmar persónuupplýsingar geta verið særandi og þær geta skaðað. Ég spyr hæstv. dómsmálaráðherra: Ætlar hún að sjá til þess að þessu verði lokað?