149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

kjör aldraðra.

[10:52]
Horfa

Ellert B. Schram (Sf):

Hæstv. forseti. Í stuttri ræðu sem ég flutti hér fyrr í vikunni gerði ég það að umtalsefni hvað þeir eldri borgarar fá í ellilífeyri frá almannatryggingum sem ekkert hafa annað milli handanna og minnti á að greiddar eru 239.500 kr. á mánuði til þess fólks og svo er tekinn skattur af þeirri greiðslu. Ellilífeyrir er sem sagt langt fyrir neðan öll framfærsluviðmið og hefur í raun dregist aftur úr á undanförnum árum.

Í nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir 3,6% hækkun, sem er náttúrlega ekkert annað en hungurlús. Fjármálaráðherra var því miður fjarstaddur á þeim fundi á mánudaginn og ég beini því tali mínu til hans þegar tækifærið gefst.

Starfshópur var skipaður í vor til að fara yfir þessa stöðu en nú, hálfu ári seinna, hefur nefndin ekki enn sent frá sér neinar tillögur. Þegar ég gerði þessa sorglegu stöðu að umræðuefni í fyrradag var ekki annað að heyra en að þingheimur tæki undir með mér um að hér þyrfti að gera betur.

Ég hef fengið tækifæri til að setjast inn á Alþingi 79 ára gamall og mitt eina verkefni er í rauninni að tala fyrir hönd eldri borgara sem verst standa og minnst eiga. Ég hef fylgst með afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins. Ég hef setið á fundi fjárlaganefndar og séð og lesið fjármálaáætlun ríkisins fyrir næsta ár og frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2018. Hvergi er minnst á neina búbót til eldri borgara.

Ég kem ekki í þennan sal á fótboltaskóm til að sparka í einn eða neinn. Ég er heldur ekki á inniskóm (Forseti hringir.) til að slappa af. Erindi mitt í þingsal er að gera mitt besta til að minna þingmenn á aldrað fólk sem býr við fátækt, veikindi, einangrun og tómleika. Það fólk á inni hjá okkur hinum (Forseti hringir.) að rétta því hjálparhönd.

Þess vegna nota ég tækifærið til að varpa þeirri spurningu til fjármálaráðherra að hann upplýsi mig og þjóðina hvort við séum að missa af lestinni eða til standi að sniðganga eldri borgara. (Forseti hringir.) Ég bið um svar og yfirlýsingu um að tekið verði tillit til eldri kynslóðarinnar og enn sé ráðrúm af hálfu stjórnvalda til að taka mark á gömlum karli sem hér hefur dottið inn og á hingað erindi í þágu elstu kynslóðarinnar.