149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

kjör aldraðra.

[10:58]
Horfa

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svarið. Við erum kannski ekki að öllu leyti sammála um hvernig þetta kerfi eigi að virka en við erum sammála um að taka á þeim vandamálum sem stór hópur eldri borgara býr við með því að fá þá upphæð sem ég nefndi áðan frá almannatryggingum, sem er náttúrlega ekki bjóðandi. Ég treysti því hins vegar að hæstv. ráðherra geri tilraun og láti á það reyna að hjálpa þeim sem verst standa. Það er það sem ég er að tala um og þar eigum við að byrja og svo sjáum við til hvernig við getum breytt kerfinu að einhverju leyti í framtíðinni eða á næstu árum. Þetta fólk er komið á þann aldur að það getur ekki beðið lengi. Þetta er spurningin um hvort við viljum hjálpa því að njóta lífsgæða áður en yfir lýkur.