149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

álag á kynferðisbrotadeild lögreglunnar.

[11:03]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég hef af því áhyggjur eins og aðrir í réttarvörslukerfinu að málsmeðferðartími sé of langur, geti verið það í einstökum tilvikum, einkum og sér í lagi í þeim brotum sem hv. þingmaður gerir að umtalsefni, þ.e. í kynferðisbrotamálunum. Hann hefur verið langur um nokkurt skeið en fyrir um tveimur árum fórum við í mikið átak við að efla kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem hefur skilað mjög miklum árangri. Ég fylgist mjög náið með því hvernig mönnum tekst að mæta þeim vanda sem hefur verið uppi með langan tíma rannsókna og einnig þeim vanda sem blasti við lögreglunni með auknum kærum slíkra mála á undanförnum misserum, sem hefur auðvitað orðið í kjölfar t.d. #metoo-umræðunnar allrar. Um það var fjallað sérstaklega í aðgerðaáætlun sem ég gaf út fyrir nokkru um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu. Það hefur gengið vel að vinna á þessum tíma og það kom reyndar fram í máli ákæruvaldsins sem hv. þingmaður vísar til í sínum fréttum að undanfarið hefur þetta gengið mjög vel. Það hefur verið fjölgað í starfsliði lögreglunnar í þeim málum en þó held ég að skipti mestu máli sú vinna sem þar hefur farið fram undanfarið við að bæta og breyta verkferlum við rannsókn slíkra mála og einnig hjá ákæruvaldinu sjálfu, vegna þess að tafirnar hafa orðið bæði við rannsókn mála og hjá ákæruvaldinu sjálfu. Þetta horfir allt til bóta og þeir dómar sem vísað er til í fréttum eru auðvitað eldri mál en hafa verið í minni tíð sem dómsmálaráðherra. Þetta horfir til batnaðar en ég dreg það hins vegar mjög í efa að menn séu að fá skilorðsbundna dóma, og ég hef ekki séð neinar tölur um það, í alvarlegum (Forseti hringir.) brotum og ég teldi að það væri auðvitað ófremdarástand ef svo væri.