149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

álag á kynferðisbrotadeild lögreglunnar.

[11:06]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svarið. Mig langar til að vitna beint í yfirmann ákærusviðsins, með leyfi forseta:

„Dómstólar hafa ekki verið að skilorðsbinda í málum þar sem um er að ræða þessi alvarlegustu brot, ekki nema í afar sérstökum tilvikum, en við erum að sjá aukningu á þessu.“

Yfirmaður ákærusviðsins sér þessa aukningu sem hæstv. dómsmálaráðherra virðist ekki hafa upplýsingar um að sé. Hver er skoðun hans á því í ljósi þessara fullyrðinga yfirmanns ákærusviðsins? Og jafnframt óska ég eftir að dómsmálaráðherra tjái sig um þessa aukningu, sem ég slæ föstu að sé rétt. Hvaða skoðun hefur hann á þeirri stöðu sem upp er komin, að dómstólar eru farnir að skilorðsbinda alvarleg kynferðisbrotamál vegna dráttar á málsmeðferð?