149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[11:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í atkvæðagreiðslu um þetta frumvarp tökum við afstöðu til nokkurra lykilspurninga, hvort við eigum að hækka persónuafsláttinn umfram vænta verðbólgu á næsta ári. Við tökum afstöðu til þess hvort við eigum að láta aukningu til barnabóta rata sérstaklega til þeirra sem eru tekjulægri en auka skerðingar við þá sem eru komnir upp í millitekjur. Það er sannarlega aðgerð sem er ætluð til frekari tekjujöfnunar en sumum finnst ekki nóg að gert. Þannig hefur Samfylkingin lagt til að við látum útgjöldin ekki vaxa um u.þ.b. 35 milljarða milli ára. Nei, það þarf að setja 24 milljarða ofan á það. Þannig myndu útgjöldin ekki vaxa um tæp 5% heldur um 8% milli ára. Þetta eru fullkomlega óábyrgar tillögur sem Samfylkingin hefur talað fyrir og til að bjarga afkomunni á bara að hækka skatta. Þau hafa boðað skattahækkanir (Forseti hringir.) upp á um 26 milljarða og ef bankaskatturinn er tekinn með upp á 33 milljarða, 33 milljarða í nýja skatta.

Það er Samfylkingin sem hefur verið með óábyrgar hugmyndir hér. (OH: Það er rangt.)