149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[11:21]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Stjórnarliðar lýsa aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem stórkostlegum jöfnunaraðgerðum. Heildarupphæðin sem var verið að samþykkja áðan fyrir barnabætur er að raungildi sú sama og fyrir fimm árum síðan, fyrir árið 2013. Hér erum við að samþykkja 500 kr. í hækkun á persónuafslætti, 500 kr. sem almenningur sem greiðir skatta fær að njóta. Þetta er nú öll jöfnunaraðgerðin. En hvað er gert fyrir útgerðina í landinu? Veiðigjöldin eru lækkuð um rúma 4 milljarða sem að stærstum hluta gengu til örfárra manna sem hafa sannarlega nóg fyrir. Það er skömm að þessari stefnu ríkisstjórnarinnar og það er verulega hallærislegt að fólk skuli tala um þetta sem einhverjar sérstakar jöfnunaraðgerðir og stór skref til að jafna stöðu fólks á Íslandi. Það eru öfugmæli.