149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

umboðsmaður barna.

156. mál
[11:30]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Með lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, barnasáttmálans, árið 2013 hafa íslensk stjórnvöld skuldbundið sig til að framfylgja ákvæðum sáttmálans í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum og framkvæmd á öllum þeim sviðum sem hann nær til. Þarna kemur embætti umboðsmanns barna við sögu. Með frumvarpinu er lagt til að umboðsmanni barna verði falin aukin verkefni og skyldur jafnframt áréttaðar sem miða að því að styrkja enn frekar stöðu barna í íslensku samfélagi og stuðla þannig að áframhaldandi innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.