149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

umboðsmaður Alþingis.

235. mál
[11:41]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég, líkt og aðrir hér, fagna því mjög að við séum að greiða atkvæði um þetta frumvarp og vona að sem flestir gjaldi því jáyrði sitt. Þetta er nefnilega risastórt mál þó að það sé kannski falið í skammstöfun. OPCAT segir ekki mikið, en þetta byggir hvorki meira né minna en á samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Með þessu máli felum við umboðsmanni Alþingis að heimsækja reglulega stofnanir sem frelsissvipta einstaklinga, í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að grimmileg eða vanvirðandi meðferð viðgangist. Þetta er því gríðarlega mikilvægt mál. Ég ætla að leyfa mér að segja að ég er mjög stoltur yfir því að fá að greiða atkvæði um þetta mál hér og fá að taka þátt í vinnunni um það í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég vil sérstaklega þakka fyrir þá eindrægni og góðu vinnu sem þar fór fram um þetta mál.