149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

lyfjalög og landlæknir og lýðheilsa.

266. mál
[12:16]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innleggið. Þingmaðurinn kom inn á það svona í meginatriðum hvort væri ekki hægt að fela hjúkrunarfræðingum og jafnvel þá eftir atvikum öðrum heilbrigðisstéttum ýmis verk sem í dag eru njörvuð niður í að sumu leyti gamaldags kerfi hjá okkur. Ég held að það sé alveg rétt hjá þingmanninum að þar eru víða tækifæri.

Hvað varðar sérstaklega hjálpartækin er það víða þannig í heilbrigðiskerfinu að uppáskriftir lækna þarf fyrir hjálpartæki sem í eðli sínu eru miklu meiri hjúkrunarvörur þar sem má ætla að þeir hjúkrunarfræðingar sem starfa með þeim sjúklingum sem undir eru hafi í rauninni miklu betri þekkingu á notkun tækjanna og hvaða tæki kynnu að henta viðkomandi einstaklingi best. Þess vegna hef ég alla vega verið því fylgjandi að hjúkrunarfræðingar fengju í auknum mæli þær heimildir.

Varðandi síðan „nurse practitioner-ana“, fyrirgefðu forseti, í Bandaríkjunum er með þeim tækjum sem hv. þingmaður nefndi, með þokkalegri nákvæmni hægt að útiloka eða öllu heldur staðfesta að um blóðtappa gæti verið að ræða, en það er ekki eins gott að útiloka hann. Það er flóknara mál en hægt er að tala um í tveggja mínútna andsvari. En vissulega væri það til bóta ef við hefðum aðgang að slíkum búnaði víðar á Íslandi.