149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

svar við fyrirspurn.

[13:38]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Líkt og ég sagði áðan er þetta líklega í fjórða eða fimmta skipti sem ég kem hingað upp og leita ásjár forseta um að þessu erindi verði svarað.

Ríkisstjórn sú sem situr nú hefur það á stefnuskrá sinni, og það er reyndar í stjórnarsáttmálanum, að auka veg Alþingis. Þess vegna hlýt ég að óska eftir því að hæstv. forseti hlutist til um að erindi mínu verði svarað. Ef sá grunur minn er réttur að verið sé að bíða eftir því að Persónuvernd gefi ráðuneytinu hagfelldara svar þannig að hægt sé að sópa málinu undir teppi verð ég að segja að verði niðurstaðan sú verður hægt að leggja Persónuvernd niður með manni og mús þann sama dag. Ef það er þannig, hæstv. forseti, að hægt sé að panta þóknanlega afgreiðslu af stjórnvöldum á hverjum tíma á upplýsingum sem eftir er leitað erum við í vanda stödd. Nú leita ég enn einu sinni ásjár forseta og í þetta sinn, eins og ég sagði í fyrri komu minni í ræðustól, krefst ég þess að þessar upplýsingar verði gerðar opinberar, nú þegar.