149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

Íslandspóstur.

[13:43]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Málefni Íslandspósts hafa verið allmikið til umræðu núna á undanförnum vikum, ekki síst eftir að í ljós kom að fyrirtækið þurfti neyðarlán frá ríkissjóði, reyndar lán sem hafði þegar verið veitt þá snemma í haust, en leitað var eftir heimild fjárlaganefndar og þings fyrir fáeinum vikum síðan. Það er alveg ljóst að það kom flestum nokkuð í opna skjöldu hversu alvarleg staða fyrirtækisins væri orðin, að fyrirtækið væri í raun komið í greiðsluþrot. Það nyti ekki lengur lánstrausts hjá viðskiptabanka sínum og þyrfti að leita atbeina ríkissjóðs til að í raun greiða út laun, eins og kom fram í umræðunni.

Það er sérstaklega alvarlegt af því hér er fyrirtæki í eigu ríkisins sem sinnir annars vegar þjónustu á sviði einkaréttar í póstþjónustu en er hins vegar í ansi umfangsmikilli samkeppnisstarfsemi um leið. Þess vegna er brýnt að bæði sé góður aðskilnaður á milli einkaréttarstarfsemi fyrirtækisins og síðan samkeppnisstarfseminnar, og eins koma óhjákvæmilega upp ýmis álitaefni þegar ríkissjóður þarf að hlaupa með þessum hætti undir bagga með rekstri félagsins.

Það er eins og þessi alvarlega rekstrarstaða hafi komið öllum í opna skjöldu, þar með talið þeim aðilum sem hefðu hvað gleggst átt að þekkja til. Er þá vísað til þeirra ráðuneyta sem fara með málefni fyrirtækisins, fjármálaráðuneytisins og samgönguráðuneytisins, en ekki síður eftirlitsaðila sem fylgjast með starfseminni. Rekstrarvandinn er rakinn til mikils taprekstrar á alþjónustu innan samkeppni, vert er að hafa það í huga: alþjónustu innan samkeppni, sér í lagi vegna aukins fjölda pakkasendinga frá Kína, sem fyrirtækið segir mikinn taprekstur hafa verið af. Á sama tíma er hins vegar óumdeilt að mikill hagnaður hefur verið af bréfasendingum innan einkaréttar hjá félaginu, hagnaðar sem með samþykki yfirvalda hefur verið nýttur til niðurgreiðslu á tapi af annarri starfsemi fyrirtækisins.

Íslandspóstur er að mínu viti skólabókardæmi um allt það sem miður getur farið í einokun ríkisins á einstökum sviðum atvinnulífsins. Megináhersla fyrirtækisins í rekstri þess á undanförnum árum virðist hafa verið að rökstyðja hækkunarþörf á þjónustu innan einkaréttar. Þegar reikningar félagsins eru skoðaðir eru engin merki að sjá um neina áherslu á aukið aðhald, neina áherslu á hagræðingu í rekstri félagsins, þrátt fyrir að stjórnendum og stjórn félagsins hefði átt að vera það ljóst að í óefni stefndi.

Þvert á móti hefur stöðugildum innan félagsins fjölgað um liðlega 100 frá árinu 2014 að telja, á sama tíma og fullyrða má að verulega hafi hallað undan í rekstrinum. Aðhaldi og ábyrgð pólitískt skipaðrar stjórnar og stjórnenda félagsins á rekstri þess virðist því hafa verið verulega áfátt. Raunar er þetta enn eitt dæmi um hversu óæskilegt er að ríkisfyrirtækjum sé stýrt af pólitískt skipuðum stjórnum. Það er allt of sjaldan sem einhver hæfisskilyrði, hæfni stjórnarmanna ráða för við skipan slíkra stjórna, heldur skiptir þar flokksskírteinið oftar en ekki öllu máli.

Á þessum tíma hefur félagið varið um 3 milljörðum kr. í fjárfestingar, m.a. í ýmsum samkeppnisrekstri, til að freista þess að skjóta stoðum undir reksturinn, en þær fjárfestingar virðast ekki hafa skilað neinum árangri. Þvert á móti liggur hins vegar eftir fyrirtækið slóð kvartana vegna ófullnægjandi aðskilnaðar einkaréttar og samkeppnisrekstrar, ásakanir um undirboð og ógagnsæi í starfseminni og svo mætti áfram telja. Raunar það margar að Samkeppniseftirlitið sá sig á endanum nauðbeygt í upphafi síðasta árs til að knýja fyrirtækið til sérstakrar sáttar um hvernig starfsemi þess yrði háttað eftirleiðis.

Stjórnvöld hafa ekki tekið á undirliggjandi vanda félagsins. Eftirliti með starfsemi þess virðist hafa verið verulega ábótavant og maður fær það á tilfinninguna að boltanum hafi stöðugt verið kastað á milli aðila, þ.e. fjármálaráðuneytisins, samgönguráðuneytisins og Póst- og fjarskiptastofnunar. Á meðan sigldi félagið í þrot.

Þessi vandi ætti ekki að koma neinum á óvart og raunar hafði verið varað ítrekað við því að svona kynni að fara. Það sem ég hef áhyggjur af í þessu samhengi er að hér erum við með í höndunum frumvarp til laga um verulegar breytingar í póstþjónustu þar sem einkaréttur félagsins verður afnuminn án þess að því er virðist að tekið hafi verið með fullnægjandi hætti á gríðarlegum rekstrarvanda fyrirtækisins, aðskilnaði milli þeirrar starfsemi sem nú á að hefja samkeppni á og hinum uppsafnaða rekstrarhalla.

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra þriggja spurninga: Hefur ráðherra látið vinna greiningu á þeim áhrifum sem frumvarp um póstþjónustu mun hafa á rekstur Íslandspósts, verði það að lögum? (Forseti hringir.) Hvernig á að standa straum af því tapi sem verið hefur á alþjónustunni eftir að einkarétturinn fellur brott? (Forseti hringir.) Kemur til greina að komið verði á sérstöku flutningsjöfnunarkerfi fyrir póstdreifingu til að opna betur upp (Forseti hringir.) samkeppnisumhverfið um allt land þegar einkarétturinn verður afnuminn?