149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

Íslandspóstur.

[13:57]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. málshefjanda þessarar umræðu. Ég get tekið undir mjög margt af því sem hann rakti í sinni framsögu um þau vandamál sem þetta fyrirkomulag hefur skapað og þá tortryggni sem athafnir þessa mikilvæga fyrirtækis á markaði hafa skapað. Í meginatriðum horfi ég á þetta þannig að við fylgjum hér nákvæmlega sömu þróun og hefur verið í langan tíma í okkar heimshluta, á Norðurlöndum, þar sem póstmagn hefur minnkað verulega. Það hefur verið ráð okkar hingað til að láta fyrirtækið þróast með þeim hætti sem það hefur gert til að þurfa ekki að grípa inn í, með opinberum fjármunum, vegna þeirrar kvaðar sem hvílir á ríkinu en ekki fyrirtækinu, til að leysa úr því að lágmarkspóstþjónusta sé rekin í þessu landi. Ég held að það sé grundvallaratriði.

Ég ítreka við þessa umræðu hér að við vinnu hv. fjárlaganefndar vegna fjárheimildanna, en ekki fjárútgjalda eins og mátti álykta af orðum síðasta ræðumanns, fórum við rækilega yfir þær aðgerðir sem þar liggja á borðinu og ég vil við þetta tækifæri hrósa stjórnendum og stjórn Íslandspósts fyrir aðgerðirnar sem þeir eru að grípa til. Meginmálið er þetta, virðulegi forseti: Það skiptir máli hvernig þingið fjallar um hið nýja frumvarp til laga um póstþjónustu sem er að koma inn í þingið og hvaða stefnumörkun verður þar lögð. Ég sé fyrir mér í öllum aðalatriðum að við verðum áfram með Íslandspóst sem einhvers konar meginpóstfyrirtæki þessa lands en ýmsa þjónustuþætti póstþjónustunnar megi bjóða út. Ég verð að segja, virðulegur forseti, að ég þarf meiri umræðu til að geta tekið undir með hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra þegar hann segir að það sé ekki mögulegt að fara útboðsleið. Vel má vera að það sé ekki tímabært nákvæmlega á þessu stigi en ég gæti vel séð fyrir mér að við fælum flutningafyrirtæki á hinum almenna markaði, sem gæti boðið í ákveðna hluta póstþjónustunnar, til að tryggja lágmarkspóstdreifingu um allt land.