149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

Íslandspóstur.

[14:02]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Íslandspóstur er þjóðhagslega mikilvægt fyrirtæki í eigu allra landsmanna sem stendur nú frammi fyrir gjörbreyttu rekstrarumhverfi og tilheyrandi rekstrarerfiðleikum. Fyrirtækið hefur nú þegar brugðist við með hagræðingu jafnt á landsbyggðinni sem á höfuðborgarsvæðinu. Alþjónustuskylda póstsins gagnvart landinu öllu er mikilvæg en setur fyrirtækið í aðra stöðu en sambærileg fyrirtæki, sem geta fleytt rjómann ofan af þar sem umsvifin eru mest og hafa engar kvaðir um alþjónustuskyldu.

Íslandspóstur á miklar eignir og hefur yfir að ráða miklum mannauð vítt og breitt um landið. Þetta er vel rekið fyrirtæki sem glímir við sama vanda og önnur sambærileg póstþjónustufyrirtæki á Norðurlöndunum sem eru líka í eigu ríkisins og standa frammi fyrir fækkun almennra bréfa, auknum kostnaði við alþjónustu og miklum kostnaði í verslun á netinu, svokölluðum Kínasendingum, sem eru fjárhagslegur baggi á fyrirtækinu.

Í kjölfar lánveitingar ríkisins til Íslandspósts hyggst fyrirtækið grípa til margvíslegra ráðstafana til að tryggja rekstrargrundvöll þess til framtíðar og hefur verið settur á fót aðgerðahópur til þess að fylgja þeirri vinnu eftir með tillögum til ríkisins. Ríkið þarf líka að skilgreina þjónustustigið og byggja á alþjónustuskyldu við alla landsmenn. Í þinginu er til umfjöllunar frumvarp um heildarendurskoðun laga um póstþjónustu og er mikilvægt að vanda þar vel til verka því að póstþjónustan er einnig einn af þeim grundvallarþáttum samfélagsins sem við þurfum að standa vörð um og er á ábyrgð ríkisins. Það er mjög mikilvægt að þjónustan haldi áfram að vera góð og skilvirk úti um allt land.