149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

Íslandspóstur.

[14:06]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér alvarlega stöðu Íslandspósts. Það er ekki að furða þótt manni finnist þetta einkennilegt allt saman, hvernig þessu hefur verið stýrt upp á síðkastið, þegar maður hugsar til þess að frá árinu 2014 hefur verið mikil bjartsýni í gangi. Síðan þá hefur verið aukið við stöðugildi hjá Íslandspósti um rúmlega 90. Kostnaðurinn við það er um 1,4 milljarðar kr. Fyrir viku var opnað glæsilegt, nýtt 650 m² pósthús á Selfossi, metnaðurinn mikill, 300 milljónir þar. 700 milljónir hafa farið í stækkun á flutningsmiðstöð fyrirtækisins á Stórhöfða á sama tíma og talað er um að hugsanlega horfi fyrirtækið fram á samdrátt.

Auðvitað verðum við að taka utan um fyrirtækið og sjá til þess að pósturinn okkar verði tryggur. Við eigum öll rétt á því að fá okkar sendingar en við verðum líka að skoða hvað hægt er að gera til hagræðingar. Mér dauðbrá þegar forstjóri stofnunarinnar kom fram og sagði að í raun væri bara rétt verið að koma fyrirtækinu fyrir vind, að því yrði vandi á höndum, eins og hann gaf í skyn, strax á árinu 2019.

Þá finnst mér að við verðum sýna gott fordæmi og vita hvað við erum að gera, og að það verði þá einhverjar verulegar hagræðingar hjá Íslandspósti. Það er algjörlega síðasta sort að taka 1,5 milljarða af almannafé og hafa næstum því á tilfinningunni að við séum að henda því út um gluggann vegna þess að það skili ekki tilætluðum árangri. Mér finnst vinnan ekki vera nógu öflug hvað varðar ábyrgðina sem við þurfum að taka á almannafé akkúrat núna. Ég skora á stjórnvöld að horfa fram fyrir tærnar á sér og taka ábyrgð á þessum 1,5 milljörðum og vita a.m.k. að þeim verði vel varið.